Skip to content

Viktor og Elín Melgar bikarmeistarar í klassískum kraftlyftingum

  • by

Viktor Samúelsson og Elín Melgar Aðalheiðardóttir voru stigahæst á Bikarmótinu í klassískum kraftlyftingum, sem lauk rétt í þessu. Mótið var haldið í World Class Kringlunni og var í umsjá Kraftlyftingafélags Reykjavíkur.

Viktor Samúelsson (Kraftlyftingafélagi Akureyrar) varð stigahæstur karla með 449,51 Wilksstig. Hann sigraði að jafnframt í -120 kg flokki með 780 kg í samanlögðum árangri; 280 kg í hnébeygju,  200 kg í bekkpressu og 300 kg í réttstöðulyftu. Viktor varð einnig stigahæstur karla í bekkpressu með 115,25 Wilksstig og í réttstöðulyftu með 172,89 Wilksstig.

Elín Melgar Aðalheiðardóttir (Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur) varð stigahæst kvenna með 393,30 Wilksstig. Hún sigraði jafnframt í 63 kg flokki með 360 kg í samanlögðum árangri; Hún bætti Íslandsmetið í hnébeygju með 135 kg, tók 90 kg í bekkpressu og 135 kg í réttstöðulyftu. Elín varð einnig stigahæst kvenna í bekkpressu með 98,32 Wilksstig.

Í hnébeygju karla varð stigahæstur Einar Örn Guðnason (Kraftlyftingafélagi Akraness) með 162,0 Wilksstig, en hann lyfti 270 kg í -105 kg flokki.

Stigahæst kvenna í hnébeygju var Ellen Ýr Jónsdóttir (Breiðabliki) með 153,70 Wilksstig, en hún setti þar nýtt Íslandsmet í -84 kg flokki með 170,5 kg lyftu.

Stigahæst kvenna í réttstöðulyftu varð Arna Ösp Gunnarsdóttir (Kraftlyftingafélagi Mosfellsbæjar) með 165,30 Wilksstig. Arna setti nýtt Íslandsmet í -63 kg flokki með 151 kg.

Stigahæsta lið kvenna varð Kraftlyftingafélag Reykjavíkur með 41 stig. Stigahæsta lið karla varð Kraftlyftingafélag Akureyrar með 56 stig.

Þó nokkur met voru slegin á mótinu og má finna finna lista yfir þá, ásamt sundurliðuðum úrslitum hér.

Sundurliðuð úrslit Bikarmótsins í klassískum kraftlyftingum 2017