EM í Litháen

Þann 24.nóvember hefst EM í klassískum kraftlyftingum í Kaunas í Litháen. Mótið stendur til 2.desember. Að þessu sinni eigum við íslendingar einn fulltrúa og er það Arna Ösp Gunnarsdóttir sem keppir í -63kg Jr. flokki. Með henni í för verður Grétar Hrafnsson, þjálfari.

Arna Ösp keppir mánudaginn 26.nóvember og við óskum henni að sjálfsögðu góðs gengis.

María heimsmeistari!

María Guðsteinsdóttir var í dag að tryggja sér heimsmeistaratitilinn í sínum flokk í kraftlyftingum! María keppti í master 1, -57kg flokki og háði mikla baráttu við Jodi Funk.

María vann sinn flokk með minnsta mögulega mun, 2.5kg eftir að dedda 160. (142.5-77.5-160=380).

Eftir bekkinn var Funk með 5kg forskot (140-85) en virtist á pappírnum vera með miklu lakara dedd, opnaði á 130 á móti 150 Maríu. En ekki er allt sem sýnist. Funk tók 130-142.5 og meldaði 150 í 3. tilraun. María tók 150-157.5 og meldaði 170 í þriðju.

En þá gerðist ýmislegt. Funk áttaði sig á því að ef hún tæki 152.5 og María klikkaði á 170 mundi hún vinna á léttari líkamsþyngd! Allt í einu breyttist hennar melding í 152.5 og hún tók það! Þarna fraus svo stigastaflan!

Auðvitað hefur María oft tekið 170 en hún er léttari en áður og kannski var það tæpt? Loksins lifnaði aftur yfir stigatöflunni og María hafði breytt lokadeddinu í 160 sem gæfi öruggan sigur.

Því miður fraus útsendingin akkúrat á meðan en María tók 160 örugglega og vann!

Heimsmeistari í öldungaflokki kvenna -57kg!!!

Og að auki stigahæst í sínum aldursflokki 40-49 ára

Við skulum gefa Maríu orðið,

”þetta var nokkuð erfitt mót í beygju og bekk. Lenti í vandræðum með sloppinn því ermarnar voru enn of þröngar og ég var hálf tilfinningalaus í öðrum handleggnum. Þannig að ég varð að fara úr honum eftir tvær lyftur en á greinilega meira þar inni. Deddið spiluðum við bara öruggt. Reyndar átti lokaþyngdin að vera byrjunarvigt en að hafa þetta bara öruggt þegar titill er í húfi.”

Til hamingju María Guðsteinsdóttir.

Norðurlandamót Unglinga

Norðurlandamót unglinga í kraftlyftingum verður haldið á Akureyri dagana 21.-22.september næstkomandi. Þar mun efnilegt kraftlyftingafólk etja kappi og verða keppendur frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Mótið er haldið í íþróttahöllinni á Akureyri og eigum við von á glæsilegu móti með flottri umgjörð.

Nú er hægt að sjá tímatöflu mótsins hér.
https://npfpower.files.wordpress.com/2018/09/timetable.pdf

Keppni lokið á V.EM

Keppni er lokið á Vestur Evrópumótinu í Kraftlyftingum.

Alex Cambray Orrason og Þorbergur Guðmundsson stigu síðastir á svið fyrir Íslands hönd. Þetta reyndist frekar erfiður dagur og voru dómarnir ekki strákunum í hag. Báðir gáfu allt í þetta og engin spurning að þeir koma báðir sterkari til baka og reynslunni ríkari. Alex var með þrjár ógildar lyftur í bekknum eftir að hafa rifið upp 315kg í hnébeygjunni og dómarnir féllu ekki með Þorbergi í beygjunni.

Íslendingarnir stóðu sig heilt yfir mjög vel og féllu nokkur Íslandsmet ásamt því að Viktor og Ragnheiður fara heim með verðlaunapening.

Þriðji keppnisdagur á V.EM

Hulda B. Waage hóf keppni fyrir hönd Íslands á þriðja keppnisdegi á Vestur Evrópumótinu í Kraftlyftingum. Hulda keppti í -84kg flokki með búnaði og átti flottan dag.

Hulda hóf daginn á 217.5kg hnéygju fyrir nýju Íslandsmeti og bætti svo um betur með 222.5kg beygju. Í bekknum bætti Hulda svo við öðru Íslandsmeti með 140kg lyftu og lauk svo deginum með 170kg lyftu í réttstöðu og gerði góða tilraun við 177.5kg sem vildu ekki upp í þetta sinn.

Í heildina lyfti Hulda 532.5kg sem gaf henni fjórða sæti í samanlögðu, bætti Íslandsmet í hnébeygju, bekkpressu og samanlagt. Svo sannarlega flottur árangur og hvatning fyrir strákana sem hefja keppni klukkan 14:30.

Alex Orrason keppir í -105kg flokki og Þorbergur í 120+kg. Hægt er að fylgjast með framgöngu strákanna hér,
http://goodlift.info/live.php

 

-105 kg flokkur karla í klassískum á V.EM

Ingvi Örn Friðriksson hefur lokið keppni í -105kg flokki á Vestur Evrópumótinu í klassískum kraftlyftingum.

Ingvi byrjaði daginn á 260kg lyftu í hnébeygju og fylgdi því eftir með 157.5kg í bekknum og að lokum fóru 297.5kg upp í réttstöðulyftu. Ingvi sýndi flottann anda þegar hann reif upp 297.5 í þriðju tilraun og virkilega gaman að sjá báráttuviljann skila honum lyftunni.

Ingvi á meira inni og ekki spurning að þetta mót fer í reynslubankann.

Viktor með brons í -120kg í klassískum

Viktor Samúelsson náði mjög góðum árangri í -120kg flokki í klassískum lyftingum sem var að ljúka á Vestur Evrópumótinu.

Viktor náði bronsi í samanlögðu með 805kg samanlagt. Viktor var með 292.5 kg. í hnébeygju sem er jafnframt nýtt Íslandsmet og náði hann silfri í beygju. Í bekknum fóru 207.5kg upp sem einnig var silfur og í réttstöðu fóru 305kg. af gólfinu sem skilaði bronsi.

Frábær árangur hjá Viktori og verður spennandi að fylgjast með honum á komandi mótum.

 

Vestur Evrópumót – dagur tvö

Þá er komið að öðrum keppnisdegi á Vestur Evrópumótinu. Í dag er komið að strákunum að keppa í klassískum og munu Viktor Samúelsson -120kg og Ingvi Örn Friðriksson -105kg stíga á svið. Báðir flokkar líta hrikalega spennandi út og verður gaman að fylgjast með strákunum taka á því.

Hægt er að fylgjast með hér,
http://goodlift.info/live.php

-84kg flokkur í klassískum á V.EM

Þá er fyrsta keppnisdegi á Vestur Evrópumótinu í Kraftlyftingum lokið og lokaði Ellen Ýr deginum fyrir Íslands hönd.

Ellen byrjaði á 157.5kg í hnébeygju og tók 165kg í lyftu 2. Í lyftu þrjú barðist hún við 167.5 en ekki vildi það hafast í dag. Í bekknum startaði hún á 87.5kg og endaði þar í 90kg. Í réttstöðunni reif hún upp 165kg. Mótið gekk vel miðað við erfiða uppkeyrslu og þétta dagskrá, dagsformið skiptir alltaf máli. Ellen endaði með samanlagt 412.5kg. og alveg ljóst að þetta fer í reynslubankann og verður gaman að fylgjast með Ellen í framtíðinni.

Ragnheiður með brons á V.EM

Ragnheiður Kristín Sigurðardóttir var rétt í þessu að næla sér í  þrenn bronsverðlaun og ein silfurverðlaun í -57kg flokki í klassískum kraftlyftingum á Vestur Evrópumótinu.

Ragnheiði gekk mjög vel á mótinu, í hnébeygju lyfti hún 122.5kg, 127.5kg og 130kg sem er nýtt Íslandsmet og bronsverðlaun í dag. í bekknum lyfti hún 77.5kg, 80kg og 82.5kg sem einnig er nýtt Íslandsmet og einnig brons. Í réttstöðu lyfti Ragnheiður, 145kg, 152,5kg og 157,5 sem er jafnt hennar besta og færði henni silfurverðlaun. Samanlagt var hún með 370kg sem er bæting á Íslandsmeti í samanlögðu um 10kg. og brons í samanlögðu.

Þessi árangur skilaði henni svo 432.1 wilksstigum sem er hæsta wilks total sem íslensk kona hefur náð í klassískum kraftlyftingum.

Við óskum Ragnheiði að sjálfsögðu til hamingju með frábæran árangur.

Ellen Ýr er svo næst á svið og hefst hennar keppni klukkan 17:00 að íslenskum tíma.