Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum kláraðist í dag. Keppnin var haldin þetta árið í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Sóley Margrét Jónsdóttir og Júlían JK Jóhannsson mættu á keppnispallinn í dag og sýndu hvað í sér bjó.
Sóley Margrét Jónsdóttir
Sóley Margrét mætti í fínum anda í keppnina en hún keppir í +84kg flokki. Hún opnaði í 260kg lyftu í hnébeygjunni sem er aðeins 5,5kg undir heimsmetinu hennar. Hún reyndi svo við 272,5kg og 275kg en því miður voru báðar lyfturnar dæmdar ógildar. Í bekkpressunni opnaði hún í 145kg og tók þar þrjár gildar lyftur með seríuna 145-150-155. Þá var bara að réttstöðulyftan eftir og kláraði hún þar með 197,5kg. Þetta gaf henni 612,5kg í samanlögðu og 7. sætið í flokknum. Glæsilegur árangur þar og augljóst að Sóley á eftir að láta fyrir sér finna á komandi árum en hún er rétt að klára stúlknaflokkinn!
Júlían Jóhann Karl Jóhannsson
Júlían Jóhann Karl mætti svo á keppnispallinn í síðasta holl keppninnar, +120kg flokkinn. Andinn var góður og var okkar maður í bætingarhug. Júlían opnaði í beygjunni í 392,5kg og var hún góð og gild. Þá fóru 412,5kg á stöngina og lyfti hann því af miklu öryggi. Persónuleg bæting hjá honum og jöfnun á íslandsmeti. Hann sleppti þá þriðju tilraun, líklega til að spara orku í bekkpressuna og réttstöðuna. Hann opnaði bekkpressuna í 307,5kg og kláraði með þrjár gildar lyftur þar. 307,5kg – 320kg – 330kg sem er 15kg bæting á íslandsmetinu. Þá var komið að réttstöðulyftunni sem hefur verið sérgrein hans. Hann opnaði í “léttum” 370kg þar, góð og gild. Þá var lítið annað í stöðunni en að bæta heimsmetið sitt með 405,5kg sem hann gerði af miklu öryggi, nýtt heimsmet og gullið gulltryggt í réttstöðulyftunni. Í síðustu lyftu mótsins bað hann um 420,5kg á stöngina og virtist hún ætla upp en því miður fór hún ekki alla leið. Þetta gaf honum 1148kg í samanlögðu og bronsverðlaunin í flokknum annað árið í röð! Þess má geta að íslandsmetið í samanlögðu var 1115kg og er þetta því umtalsverð bæting á því.
Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum innilega til hamingju með árangurinn!