Skip to content

Hulda og Viktor hafa lokið keppni

  • by

HM í kraftlyftingum er enn í fullum gangi í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Í dag stigu á keppnispallinn tveir Íslendingar, þau Hulda B. Waage og Viktor Samúelsson.

Hulda B. Waage

Hulda B. Waage var í fyrra hollinu í dag og keppti hún í -84kg flokki. Í beygjunni opnaði hún í 210kg en lyftan fór því miður ekki upp. Hún reyndi þá aftur við 210kg og stóð sannfærandi upp með lyftuna en hún var því miður dæmd af vegna tæknigalla. Í þriðju þyngdi hún um 5kg og reyndi við 215kg en lyftan gekk því miður ekki. Hún datt því miður út úr keppni í samanlögðu. Hún hélt þó áfram og lyfti 137,5kg í bekkpressunni. Hulda mætti svo fílefld í réttstöðulyftuna og kláraði þar með 172,5kg lyftu.

Viktor Samúelsson

Eftir hádegi var komið að -120kg karla og þar mætti Viktor Samúelsson til leiks. Hann opnaði í 360kg í hnébeygjunni sem fór upp en var því miður dæmd ógild. Hann fór þá í 365kg og kláraði þá lyftu gilda og góða. Í bekknum reyndi hann við 290kg þrisvar sinnum og lyfti hann því alla leið tvisvar en því miður var engin af þeim dæmd gild. Þar með datt hann út úr keppninni í samanlögðu. Viktor lét það ekki á sig frá og mætti í deddið fullur af anda. Þar lyfti hann 320kg og stóð svo upp með tilraun við nýtt íslandsmet 340kg en því miður var hún dæmd ógild.

Svona er þetta stundum. Það var langt ferðalag til Dubai og búnaðarlyftingar eru alltaf óútreiknanlegar sem er hluti af fjörinu. Hulda og Viktor koma án efa tvíefld til baka.

Við hvetjum alla að fylgjast með Sóley og Júlíani á morgun. Sóley lyftir kl. 07:00 á íslenskum tíma og Júlían kl. 09:00. Bein útsending verður HÉR. Þau sem ætla að horfa í tölvu verða að slökkva á öllum “Ad blocker” forritum svo að Olympic Channel útsendingin virki rétt.