Eitt mikilvægasta starfið á kraftlyftingamótum er að vinna sem stangarmaður. Keppendur setja traust sitt á stangarmennina, að þeir séu reiðubúnir að grípa stöngina og keppenda ef lyfta mistekst. Það er því gríðarlega mikilvægt að þau sem sinna stangarvörslu þekki til hvers er ætlast til af þeim. Að þau viti hvernig best er að haga stangarvörslu svo að keppandi finnur til öryggis þegar lyfta er tekin auk þess að stangarhleðsla fari fram eins hratt og hægt er.
Í tæknireglum segir um stangarmennsku : Stangarmenn eru ábyrgir fyrir því að hlaða og afhlaða stöng, stilla hnébeygjustatíf eða bekk, hreinsa stöng eða pall ef aðaldómari fer fram á það, og almennt að sjá um að pallur sé í góðu ástandi og sé ætíð hreinn og snyrtilegur. Aldrei skulu vera færri en tveir eða fleiri en fimm stangarmenn á lyftingapalli. Þegar keppandi undirbýr lyftu mega stangarmenn aðstoða hann við að taka stöng af statífum. Þeir mega einnig aðstoða við að koma stöng aftur í statífin eftir tilraun. Þeir mega hins vegar ekki snerta keppanda eða stöng meðan á tilraun stendur, þ.e.a.s. frá því að gefið er merki um að hefja tilraun uns gefið er merki um að tilraun sé lokið. Eina undantekningin frá þessari reglu er ef lyfta er í hættu og líkleg að valda keppanda meiðslum. Þá mega stangarmenn að fengnum tilmælum frá aðaldómara eða keppanda sjálfum losa keppanda undan stönginni. Ef tilraun keppanda er dæmd ógild vegna mistaka stangarmanns, en heppnaðist að öðru leyti og keppandi á enga sök á, mega dómarar gefa honum aðra tilraun við sömu þyngd í lok umferðar.
Kennslumyndbönd á You Tube sem kennir stangarmennsku :