Skip to content

Ingvi með Íslandsmet á EM í klassík

  • by

Ingvi Örn Friðriksson (KFA) lauk rétt í þessu keppni á EM í klassískum kraftlyftingum með ágætis árangri og sló Íslandsmet í réttstöðulyftu í opnum flokki sem og Íslandsmet ungmenna í hnébeygju og samanlögðu.

Ingvi keppti í -105 kg flokki ungmenna (U23) og er þetta í fyrsta sinn sem hann keppir á alþjóðlegu móti, fyrir utan RIG í janúar. Ingvi fór með allar lyftur gildar nema eina. Í hnébeygju bætti hann eigið Íslandsmet í þriðju tilraun með 255 kg. Í bekkpressu fékk hann aðra tilraun með 147,5 kg ógilda vegna tæknigalla en tók svo 152,5 kg nokkuð auðveldlega í þriðju. Ingvi fór létt með allar tilraunir í réttstöðulyftunni og kláraða mótið með því slá eigið Íslandsmet í opnum flokki með 295 kg. Samanlagður árangur hans er einnig nýtt Íslandsmet, 702,5 kg. Sá árangur kom honum í 11. sætið í samanlögðum árangri.

Sigurvegari flokksins var Jokubas Stasiulis frá Litháen með 765 kg.

Við óskum Ingva til hamingju með nýju metin og prýðilega innkomu á alþjóðasviðið.

Næsti Íslendingur til að stíga á keppnispallinn verður Birgit Rós Becker (BRE). Hún keppir í -72 kg flokki nk. föstudag kl. 11:00 að íslenskum tíma.