Guðfinnur Snær Magnússon var síðastur íslensku keppendanna til að stíga á keppnispallinn í Litháen. Guðfinnur sem keppir í +120 kg flokki lyfti mest 407.5 kg í hnébeygju sem er persónuleg bæting og átti þar að auki góða tilraun við Íslandsmet í þriðju tilraun þegar hann reyndi við 417.5 kg. Ekki hafðist það í dag, en sú þyngd fer örugglega upp hjá honum í náinni framtíð. Í bekkpressu lyfti hann 300 kg og í réttstöðu fékk hann allar lyftur gildar og endaði þar á 320 kg sem er bæting á hans besta árangri um 10 kg. Samanlagt lyfti Guðfinnur 1027.5 kg sem er einnig persónuleg bæting um12.5 kg og tryggði sér þar með 4. sætið í flokknum. Til hamingju Guðfinnur með frábæran árangur og góðar bætingar.