Skip to content

Sóley Margrét með silfurverðlaun á HM í kraftlyftingum.

Sóley Margrét Jónsdóttir stóð fyllilega undir væntingum á HM í dag þar sem hún vann til silfurverðlauna í +84 kg þyngdarflokknum. Sóley háði harða baráttu við Katrinu Sweatman frá Bretlandi og var keppnin á milli þeirra jöfn og gríðarlega spennandi. Í hnébeygju lyfti hún mest 277.5 kg sem tryggði henni gullverðlaun í greininni og í bekkpressu hlaut hún silfurverðlaun fyrir 180 kg lyftu. Úrslitin réðust svo í réttstöðulyftunni þar sem Sóley gerði atlögu að heimsmeistaratitlinum í tilraun sinni við 212.5 kg en mistókst naumlega eftir hörkubaráttu við þyngdina. Endaði hún með 200 kg í réttstöðu og fékk bronsverðlaun í þeirri grein. Samanlagt lyfti Sóley 657.5 kg og vann til silfurverðlauna fyrir samanlagðan árangur og kemur því heim hlaðin verðlaunapeningum. Við óskum Sóley innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur.