HM í kraftlyftingum lauk í Tékklandi í dag með frábærri keppni í +120,0 kg flokki. Úkraínumaðurinn Volodymyr Svistunov sigraði að lokum á nýju heimsmeti 1132,5 kg, á undan landa sínum Viktor Testsov með 1130,0 kg. Heimsmet voru sett bæði á bekknum og í réttstöðulyftu.
Auðunn Jónsson keppti fyrir Ísland, og þar sannaðist að krosstré bregðast sem önnur tré, því sá fátíði atburður gerðist að Auðunn féll úr keppni.
Hann vigtaðist 142,02 kg en fann strax við upphitun að þetta væri ekki toppdagur.
Auðunn byrjaði í 385,0 kg í beygjum og fékk gilt 2-1. Hann fór síðan beint í 410,0 kg sem hefur verið á dagskrá að klára í nokkurn tíma. Það fór örugglega upp 3-0. Auðunn bað um 415,0 kg í síðustu tilraun, en lét tímann renna út, enda nýtt íslandsmet í höfn.
Rússinn Dmitry Ivanov sigraði í beygju á nýju heimsmeti 460,0 kg, en féll síðan úr keppni á bekknum og missti þannig metið. Hann var ekki sá eini sem lenti í vanda á bekknum.
Það var ljóst að ekki var allt með felldu þegar Auðunni mistókst með byrjunnarþyngdina 265,0 kg. Hann náði aldrei að rétta út og átti þrjár misheppnaðar tilraunir við þá þyngd.
Þar með þurfti hann að horfast í augu við þá bitru staðreynd að vera dottinn úr keppni og beygjumetið þar með ógilt.
Bekkurinn endaði á nýju heimsmeti til úkraínumannsins Viktor Testsov, 350,0 kg, en þá höfðu þeir Kenneth Sandvik skipst á að setja heimsmet á víxl.
Auðunn hélt ótrauður áfram í réttstöðulyftu og byrjaði í 330,0 kg sem fór létt upp. Hann reyndi við 350,0 í annarri en greipin gaf sig á leiðinni upp. Hann hætti þá keppni, enda ljóst að styrkurinn var ekki til staðar.
Heildarúrslit mótsins: http://www.powerlifting-ipf.com/332.html
Sumt tekst – annað ekki, eins og gengur. Við þökkum íslenska liðinu fyrir alla vinnuna, fyrir og á þessu móti og óskum þeim góðrar heimferðar.
Íslenska liðið að loknu móti: