Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum, sem fram í Málaga á Spáni, lauk í dag með keppni í -120 kg og +120 kg flokkum karla. Þar voru mættir frá Íslandi þeir Viktor Samúelsson og Júlían J. K. Jóhannsson. Viktor hafnaði í fjórða sæti í -120 kg fl. með 997,5 kg í samanlögðum árangri og vann til silfurverðlauna í bekkpressu með 305 kg. Júlían, sem keppti í +120 kg fl., náði því miður ekki gildri lyftu í bekkpressu og datt úr keppni í samanlögðum árangri. Þrátt fyrir það tókst honum að vinna til bronsverðlauna í hnébeygju með 402,5 kg.
Viktor jafnaði sinn besta árangur í hnébeygju og lyfti mest 375 kg í annarri tilraun. Hann átti svo í erfiðleikum í bekkpressu og mistókst tvívegis að lyfta 305 kg opnunarþyngdinni, en kom svo tvíefldur til leiks í þriðju tilraun, kláraði lyftuna og tók bronsið í greininni. Í réttstöðunni lyfti Viktor svo 317,5 kg í annarri tilraun. Samanlagt tók hann því 997,5 kg og hafnaði í fjórða sæti. Flokkinn sigraði Belginn Orhan Bilican á 1055 kg í samanlögðum árangri.
Júlían hefur átt betri daga á keppnispallinum og átti í erfiðleikum í bekkpressu og í réttstöðulyftu. Honum tókst þó vel til í hnébeygju og tók silfrið með 402,5 kg, sem er 2,5 kg persónuleg bæting. Bekkpressan fór ekki vel; Júlíani mistókst þrívegis með 305 kg og datt þar með úr keppni (í samanlögðum árangri). Í réttstöðunni náði hann 340 kg í fyrstu tilraun, en missti af gullinu í greininni þegar honum mistókst naumlega að lyfta 375 kg í annarri og þriðju tilraun. Júlían datt úr keppni í samanlögðum árangri en flokkinn sigraði Úkraínumaðurinn Volodomyr Svistunov á 1147,5 kg. Júlían getur dregið lærdóm af þessu móti og stillt sig af fyrir næsta mót, Heimsleikana í júlí.
Þetta er frábær árangur hjá okkar mönnum, þrátt fyrir að ekki hafi allt farið að óskum, og við óskum þeim til hamingju!