Skip to content

Hulda og Árdís hafa lokið keppni á EM

  • by

Í dag kepptu þær Hulda B. Waage og Árdís Ósk Steinarsdóttir á Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum, sem stendur yfir í Málaga á Spáni. Hulda hafnaði í sjötta sæti í -84 kg flokki á nýju Íslandsmeti í samanlögðu með 515 kg. Í +84 kg flokki hafnaði Árdís í fjórða sæti og bætti nýslegið met Sóleyjar Jónsdóttur í samanlögðu með 545 kg.

Hulda lyfti mest 210 kg í hnébeygju, sem er 5 kg bæting á hennar eigin Íslandsmeti. Í bekkpressu tókst henni einnig að bæta eigið Íslandsmet um 5 kg þegar hún lyfti 125 kg í annarri tilraun. Í réttstöðulyftu lyfti Hulda svo mest 180 kg í þriðju tilraun. Samanlagt lyfti hún því 515 kg, sem er 12 kg bæting á tveggja ára gömlu meti Fríðu Bjarkar Einarsdóttur. Þessi árangur kom henni í sjötta sætið í -84 kg flokki. Flokkinn vann Rússinn Nadezhda Sindikas á 602,5 kg.

Árdís var að keppa í fyrsta sinn frá því að hún lenti í slæmu slysi á EM í bekkpressu á síðasta ári. Hún virðist hafa náð góðum bata og átti gott mót. Hún bætti Íslandsmetið í hnébeygju um 7,5 kg þegar hún lyfti 222,5 kg í þriðju tilraun. Í bekkpressu lyfti hún mest 150 kg í annarri tilraun. Í réttstöðulyftu lyfti Árdís mest 172,5 kg, sem er 12,5 kg persónuleg bæting. Samanlagt lyfti hún 545 kg og hafnaði í fjórða sæti í +84 kg flokki. Það er 17,5 kg bæting á metinu sem Sóley Jónsdóttir setti fyrr í vikunni. Flokkinn vann Agnes Szabo frá Ungverjalandi á 655 kg.

Við óskum Huldu og Árdísi til hamingju með árangurinn!

Næstir Íslendinga á keppnispallinn í Málaga eru þeir Viktor Samúelsson og Júlían J. K. Jóhannsson. Þeir hefja keppni kl. 10:30; Viktor í -120 kg flokki og Júlían í +120 kg flokki. Beina útsendingu má nálgast á goodlift.info/live.php.