Vestur-Evrópumótinu er lokið og getur íslenska landsliðið vel við unað. Tveir keppendur, þeir Friðbjörn Hlynsson og Guðfinnur Snær Magnússon, urðu Vestur-Evrópumeistarar en þess fyrir utan unnu Íslendingar til þriggja silfurverðlauna og fimm bronsverðlauna. Þá eru ótalin þau fjölmörgu verðlaun sem keppendur hlutu í hverri grein fyrir sig.
Í stigakeppni einstaklinga varð Guðfinnur Snær Magnússon stigahæstur yfir alla þyngdarflokka í kraftlyftingum með útbúnaði en hann hlaut 89.04 IPF stig og Alexander Örn Kárason varð þriðji stigahæsti keppandinn í klassískum kraftlyftingum með 101.9 IPF stig fyrir sinn árangur.
Árangur Íslendinganna í liðakeppninni fór svo á þann veg að íslenska karlaliðið í klassískum kraftlyftingum hlaut silfurverðlaun en Bretar unnu til gullverðlauna. Íslenski karlahópurinn sem keppti í kraftlyftingum með útbúnaði vann líka til silfurverðlauna en þar urðu Bretar einnig hlutskarpastir og unnu gullið. Íslenska kvennaliðið í klassíkum kraftlyftingum hafnaði svo í 6. sætinu en það voru ítölsku konurnar sem hlutu gullið.