Skip to content

Guðfinnur Snær er Vestur-Evrópumeistari í kraftlyftingum.

Síðasta keppnisdeginum á Vestur-Evrópumótinu lauk í gær en þá var keppt í kraftlyftingum með útbúnaði. Sex íslenskir keppendur stigu á keppnispall, tvær konur og fjórir karlar.

Halla Rún Friðriksdóttir sem keppti í -76 kg flokki féll því miður úr keppni í hnébeygjunni en bætti sér það upp með gullverðlaunum í bekkpressu og réttstöðulyftu.

Þóra Kristín Hjaltadóttir keppti í -84 kg flokki og féll sömuleiðis úr í hnébeygjunni, en hlaut bronsverðlaun í bekkpressu og réttstöðulyftu.

Björn Margeirsson sem keppti í -83 kg flokki vann til silfurverðlauna í flokknum með samanlagðan árangur upp á 585 kg. Þá hlaut hann einnig brons fyrir hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu.

Egill Hrafn Benediktsson keppti í -120 kg flokki og vann þar til bronsverðlauna, en hann náði að lyfta 710 kg í samanlögðum árangri. Egill sem lyfti 300 kg í hnébeygju fékk einnig gull í þeirri grein og brons í bekkpressu og réttstöðulyftu.

Árni Snær Jónsson keppti í +120 kg flokki og náði bronsverðlaunum með 710 kg í samanlögðum árangri. Árni hlaut einnig bronsverðlaun fyrir hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu.

Guðfinnur Snær Magnússon sem keppti líka í +120 kg flokki hafði mikla yfirburði í flokknum og vann til gullverðlauna með 1015 kg í samanlögðum árangri. Þá hlaut hann silfur fyrir hnébeygju og gull fyrir bekkpressu og réttstöðulyftu. Náði hann góðum persónulegum bætingum, bæði í hnébeygju þegar hann lyfti 405 kg og einnig í réttstöðu með 310 kg lyftu. Í heildina bætti hann sinn eigin samanlagða árangur um 15 kg. Guðfinnur varð jafnframt stigahæsti keppandinn yfir alla þyngdarflokka með 89.04 IPF stig.