Vestur-Evrópukeppnin í kraftlyftingum er framundan en að þessu sinni fer mótið fram í Reykjanesbæ 8.-10. sept. næstkomandi. Til leiks mæta um 100 keppendur frá 11 löndum og íslenski landsliðshópurinn mun án efa blanda sér í baráttu um verðlaunasæti. Í klassískum kraftlyftingum keppa 12 Íslendingar og 6 keppendur munu keppa í kraftlyftingum með útbúnaði. Næstu daga munum við kynna þá keppendur sem stíga á pall fyrir Íslands hönd.
Keppendur á föstudeginum 8. september:
Drífa Ríkarðsdóttir keppir í -57 kg flokki og er að keppa á sínu fyrsta alþjóðamóti í kraftlyftingum. Hún er einstaklega sterk í réttstöðulyftu enda Íslandsmethafi í greininni og á örugglega eftir að gera atlögu að fleiri Íslandsmetum á mótinu. Drífa keppir föstudaginn 8. september kl. 10:00.
Hilmar Símonarson sem keppir í -74 kg flokki er fara upp um þyngdarflokk en hann á öll Íslandsmetin í -66 kg flokknum. Það á því ekki eftir að koma á óvart ef Hilmar reynir að bæta metin í -74 kg flokknum. Hilmar keppir föstudaginn 8. september kl. 15:00.
Friðbjörn Bragi Hlynsson er að keppa á sínu öðru Vestur-Evrópumóti en hann hefur áður keppt á bæði Evrópu- og heimsmeistaramótum. Friðbjörn keppir í -83 kg flokki og er núverandi Íslandsmethafi í hnébeygju, réttstöðu og samanlögðum árangri í flokknum. Friðbjörn keppir föstudaginn 8. september kl. 15:00.