Skip to content

Kolbrún með bronsverðlaun í hnébeygju á HM unglinga.

Kolbrún Katla Jónsdóttir sló lokatóninn hjá íslenska liðinu á HM unglinga með glæsilegri frammistöðu. Kolbrún sem keppti í +84 kg flokki blandaði sér strax í baráttuna um verðlaun og tók góða og taktíska seríu í hnébeygjunni. Hún endaði á persónulegri bætingu í þriðju lyftunni þegar hún tók 202.5 kg af mikilli hörku og náði þannig bronsverðlaunum í greininni. Í bekkpressu lyfti hún mest 77.5 kg og þegar komið var að réttstöðunni var Kolbrún greinilega ákveðin í að bæta árangur sinn í henni. Hún þurfti hins vegar að taka vel á því þar sem hún náði ekki almennilega að rétta úr sér með 190 kg í annarri lyftu og fékk hana ógilda. Það setti hana þó alls ekki út af laginu og kláraði hún þá þyngd í þriðju lyftu og bætti sinn besta árangur í greininni um 10 kg. Samanlagður árangur hennar endaði í 470 kg sem gaf henni 6. sætið í flokknum og var jafnframt persónuleg bæting um 15 kg.

Allir íslensku keppendurnir hafa þá lokið keppni og óskum við þeim öllum til hamingju með góðan árangur, Íslandsmet og persónulegar bætingar.