Það má segja að stelpurnar hafi stolið senunni á Kópavogsmótinu í bekkpressu sl laugardag. Fjöldi þeirra þótti í meira lagi fréttnæmur og tóku fréttamenn viðtöl við nokkrar konur sem kepptu á mótinu. Þær töluðu allar skýru máli um að kraftlyftingar er íþrótt sem hentar konum ekki síður en körlum.
Ármenningar hafa verið með áberandi sterkasta kvennaliðið fram að þessu en konum fer fjölgandi hjá öðrum liðum líka. Þó nokkuð er um að konur úr ólíkum félögum æfi saman og hvetji hver aðra áfram.
María Guðsteinsdóttir hefur borið höfuð og herðar yfir öðrum kraftlyftingakonum undanfarin ár en verður að búa sig undir aukna samkeppni á næstunni. Það er hún einmitt að gera þessa dagana, en hún er í æfingarbúðum hjá Jörgen Bertelsen landsliðsþjálfara Dana staðráðin í að bæta sig enn frekar á komanda ári.
Næsta mót á mótaskrá Kraft er einmitt kvennamót, Sunnumótið, sem fer fram á Akureyri 16. júlí nk. í umsjá KFA. Þetta er þriðja Sunnumótið, en mótið var upphaflega sett á laggirnar til heiðurs Sunnu Hlínar Gunnlaugsdóttur. Á mótinu er keppt í bekkpressu og réttstöðulyftu án útbúnaðar. Í fyrra kepptu níu konur. Það verður gaman að sjá hvort keppendum fjölgi í ár.
Skráning á Sunnumótið er hafin. Mótið er að mótaskrá Kraft og gilda venjulegar reglur um þátttöku; keppendur þurfa að vera réttskráðar í félögum innan ÍSÍ og fara í öllu eftir reglugerðum Kraft. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu mótshaldara.