Þrír Íslendingar kepptu í gær í klassískum kraftlyftingum á fjölgreinamótinu Arnold Classic Europe, sem stendur yfir í Barselóna á Spáni. Það eru þær Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir (57 kg fl.), Elín Melgar Aðalheiðardóttir (63 kg fl.) og Arnhildur Anna Árnadóttir (72 kg fl.).
Ragnheiður setti nýtt Íslandsmet í hnébeygju með því að lyfta 125 kg. Í bekkpressu lyfti hún 80 kg og missti naumlega af 82,5 kg. Henni tókst svo að lyfta 145 kg í réttstöðulyftu og náði því 350 kg samanlagt og 411,25 Wilksstig.
Elín náði, rétt eins og Ragnheiður, að bæta Íslandsmet í hnébeygju í sínum flokki með því að lyfta 132,5 kg. Hún tók svo 90 kg í bekkpressu, en það var stigahæsta bekkpressa kvenna. Elín lyfti 135 kg í réttstöðulyfti og náði því 357,5 kg samanlagt og 390,68 Wilksstig.
Arnhildur Anna jafnaði sinn besta árangur í klassískri hnébeygju með því að taka 155 kg. Hún lyfti svo 77,5 kg í bekkpressu og fór létt með 170 kg í réttstöðulyftu. Samanlagt náði hún því 402,5 kg og 392,84 Wilksstig.