Skip to content

Metaregn á NM

  • by

Opnu Norðurlandamótin í kraftlyftingum og bekkpressu karla og kvenna fóru fram í Njarðvíkum um helgina í umsjón Massa og var umgjörð og framkvæmd mótsins öll hin glæsilegasti.
Í tengslum við mótið fór fram þing NPF, en Ísland hefur verið í forsvari þar undanfarin tvö ár.
Norðurlandaþjóðirnar mættu með misstór lið til leiks. Flestir komu frá Noregi, en norðmenn hafa ekki áður sent jafn fjölmennt lið í keppni á alþjóðamóti.
Ísland sendi samtals 12 keppendur á mótin og stóðu þau sig öll með mikilli prýði. Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir, Sindri Freyr Arnarson og Auðunn Jónsson unnu sína flokka. Silfurverðlaun unnu Alexandra Guðlaugsdóttir, Rósa Birgisdóttir, Hörður Birkisson, Aron Teitsson og Viktor Samúelsson, en til bronsverðlauna unnu Dagfinnur Ari Normann, Sigfús Fossdal, Halldór Eyþórsson og Viktor Samúelsson,  Í kraftlyftingum lentu Íslensku liðin í öðru sæti á eftir Norðmönnum bæði í kvenna- og karlaflokki og í bekkpressu karla vann íslenska liðið þriðja sætið. Mörg íslandsmet féllu.

Hér má sjá heildarúrslit.
KRAFTLYFTINGAR
BEKKPRESSA

Á  mótunum, sem voru á mótaskrá IPF – alþjóða kraftlyftingasambandsins – féllu fimm heimsmet.

Í opnum flokki karla +120 kg setti Fredrik Svensson frá Svíþjóð heimsmet í bekkpressu með 370,5 kg. Nokkrum mínútum síðar var það met eftirminnilega slegið af finnanum Kenneth Sandvik sem lyfti 371 kg.

Í yngri flokkum voru sett þrjú heimsmet:

Anna Dorothea Espevik frá Noregi setti stúlknamet í bekkpressu single lift í -72 kg flokki þegar hún lyfti 140 kg, en hún er fædd 1998.
Calle Nilsson frá Svíþjóð, fæddur 1996, setti drengjamet í -120 kg flokki í bekkpressu með 295 kg og í bekkpressu single lift með 300 kg.
Evrópumet og Norðurlandamet, landsmet og persónulegar bætingar yrði of langt mál að telja upp.

Kraftlyftingasamband Íslands þakkar Massa og öllum þeim sem komu að mótinu með einum eða öðrum hætti kærlega fyrir mikla vinnu. Við óskum keppendum og nýjum methöfum til hamingju með árangurinn.