Skip to content

Júlían með gull í réttstöðu og brons í samanlögðu!

  • by

Júlían J. K. Jóhannsson vann í dag til gullverðlauna í réttstöðulyftu og bronsverðlauna í samanlögðum árangri í +120 kg flokki á Heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum, sem lauk í dag í Pilsen í Tékklandi.

Júlían lenti í því, eins og margir aðrir í flokknum, að fá opnunarþyngdina í hnébeygju ógilda á dýpt. Honum tókst að fá sömu þyngd, 390 kg, gilda í annarri tilraun. Í þriðju tilraun fékk hann 405 kg ógilda á dýpt. Í bekkpressu lyfti Júlían 300 kg í fyrstu tilraun, en mistókst svo naumlega að lyfta 310 kg í annarri og þriðju tilraun. Júlían varð í fyrra heimsmeistari í réttstöðulyftu, og var staðráðinn í að verja þann titil í ár. Hann fór létt með opnunarþyngdina, 340 kg. Í annarri tilraun tryggði hann sér svo titilinn þegar hann lyfti 370 kg. Í þriðju tilraun gerði Júlían þá atlögu að nýju heimsmeti í réttstöðulyftu með 400 kg, en tókst því miður aðeins að koma stönginni upp að hnjám að þessu sinni!

Júlían hafnaði því í þriðja sæti með 1060 kg í samanlögðum árangri á eftir Úkraínumanninum Volodymyr Svistunov og Tékkanum og heimsmeistaranum David Lupač, en þeir lyftu báðir 1127,5 kg.