Skip to content

Júlían JK Jóhannsson er íþróttamaður ársins 2019

  • by

Samtök íþróttafréttamanna útnefndu í kvöld Júlían JK Jóhannsson sem íþróttamann ársins 2019. Þetta er í fjórða sinn sem kraftlyftingamaður vinnur verðlaunin en það hefur ekki gerst síðan 1981. Jón Páll Sigmarsson vann verðlaunin 1981 og Skúli Óskarsson 1978 og 1980.

Júlían hefur verið lengi í íþróttinni miðað við aldur en hann er fæddur árið 1993. Hann keppti fyrst árið 2009, fyrir 10 árum síðan. Óhætt að segja að síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Hann klárar þetta keppnisár með sitt annað heimsmet í réttstöðulyftunni. Vann í annað skiptið bronsverðlaun í samanlögðu á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum og það var ljóst að hann yrði sterkur valkostur í kvöld.

Þeir sem þekkja Júlían bera honum góða söguna. Kraflyftingamaður í húð og hár. Hann er hress í fasi, kíminn og hvetur fólk í kringum sig til dáða. Það er ljóst þegar litið er yfir feril hans að dropinn holar steininn. Hann hefur markvisst bætt sig ár eftir ár og sýnir okkur hinum að þar sé lykillinn að árangri.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum innilega til hamingju með árangurinn!

Íþróttamaður ársins 2019 með 405,5kg í höndunum – Mynd frá Þóru Hrönn