Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum hefst á mánudaginn í Viborg í Danmörku.
Þrír keppendur mæta til leiks frá Íslandi.
Sóley Margrét Jónsdóttir keppir í +84kg flokki þar sem hún er rönkuð inn sem númer tvö á eftir Hildeborg Hugdal frá Noregi. Sóley tekur hér þátt á HM í opnum flokki í fjórða sinn, en hún er meðal reynslumestu keppenda okkar þó hún sé ennþá í unglingaflokki samkvæmt kennitölu. Æfingar hafa gengið vel hjá henni, sérstaklega á bekknum. Hún hefur þó átt við bakmeiðsli að stríða í nokkurn tíma en við vonum að það muni ekki hamla henni um of á keppnisdeginum.
Alex Cambray Orrason keppir í -93kg flokki. Þetta er fyrsta heimsmeistaramót Alex en hann hefur tekið stöðugum framförum í þessum þyngdarflokki og náði HM-lágmörkum á VesturEvrópumótinu í sumar þar sem hann var stigahæstur í karlaflokki.
Guðfinnur Snær Magnússon keppir í +120kg flokki og verður þar einn íslendinga þar sem Júlían Jóhannsson því miður neyddist til að draga sig úr keppni vegna meiðslna.
Alex keppir miðvikudaginn 16.nóvember en Sóley og Guðfinnur laugardaginn 19.nóvember.
Streymt verður frá mótinu.
Eins og fram hefur komið verður líka Special Olympics kraftlyftingakeppni í tengslum við HM og taka þau María Sigurjónsdóttir og Jón Ingi Guðfinnsson frá lyftingadeild Suðra þátt.
Við óskum þeim öllum góðs gengis á mótinu og hlökkum til að fylgjast með!