Skip to content

Heimsmeistaramót unglinga í kraftlyftingum – Helgi Jón og Sebastiaan

Síðustu keppendurnir frá Íslandi mættu á pallinn í gær. Það voru kapparnir Helgi Jón Sigurðsson og Sebastiaan Dreyer. Þeir keppa báðir í -120 kg flokki unglinga. 

Í hnébeygju opnaði Helgi Jón á öruggum 285 kg. Önnur lyfta með 300 kg var jöfnun á hans besta og hreyfðist alveg jafn vel og fyrsta. Helgi Jón kláraði hnébeygjuna með flottri 307,5 kg beygju sem er 7,5 kg persónuleg bæting.  Í bekkpressu opnaði hann á sínu besta eða 180 kg sem flugu upp. Lyfta tvö með 195 kg var komin hálfa leið upp þegar hún stoppaði. Í þriðju bekkpressu reyndi Helgi Jón aftur við 195 kg sem fór upp en dæmd ógild. Kvviðdómur snéri þeim dómi við og þar með 10 kg persónuleg bæting í bekknum. Í réttstöðulyftu opnaði Helgi Jón á léttum 290 kg. Í annarri lyftu hækkaði hann í 307,5 kg sem fóru af öruggi upp af pallinum. Í lokalyftunni voru 317,5 kg hlaðið á stöngina en því miður náði Helgi Jón ekki að klára lyftuna. Samanlagður árangur Helga Jóns varð 810 kg sem er 15 kg persónuleg bæting og nýtt Íslandsmet. Innilega til hamingju með bætingarnar og Íslandsmetið, Helgi Jón !

Sebastiaan opnaði í hnébeygju á þægilegum 290 kg. Hann hækkaði um 17,5 kg í annarri og hreyfðust 307,5 kg af sama öryggi. Í þriðju hnébeygju lyfti Sebastiaan 320 kg og fékk hana gilda af dómurum en því miður snéri kviðdómur þeim dómi við. Sú lyfta hefði skilað honum 7,5 kg persónulegri bætingu og nýju Íslandsmeti. Sebastiaan opnaði bekkinn á léttum 170 kg. Í annarri lyftu hækkaði hann um 10 kg og fóru 180 kg upp jafn örugglega og fyrsta lyfta. Í þriðju bekkpressu hækkaði Sebastiaan  í 190 kg en þau fóru ekki alla leið upp að þessu sinni.  Sebastiaan opnaði í réttstöðulyftu á öruggri 272,5 kg lyftu. Í annarri lyftu fóru 285 kg upp en lyftan dæmd ógild vegna tæknivillu. Sebastiaan reyndi aftur við sömu þyngd í þriðju lyftu en náði ekki að klára. Samanlagður árangur Sebastiaan varð 760 kg. Innilega til hamingju með mótið, Sebastiaan !