Skip to content

Frábær árangur á HM í klassískum kraftlyftingum

Íslensku keppendurnir á heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum áttu góðu gengi að fagna.

Kristín Þórhallsdóttir hreppti silfurverðlaun fyrir samanlagðan árangur í -84 kg flokki. Kristín lyfti 210 kg í hnébeygju og hlaut brons í greininni. Í bekkpressu hlaut hún einnig bronsverðlaun, en þar byrjaði hún á 115 kg sem var mjög örugg þyngd fyrir hana en fór svo í 120 kg í 2. tilraun, sem var líka frekar létt hjá henni. Í þriðju og síðustu tilraun bað hún um 125 kg sem flugu upp og nýtt Íslandsmet í höfn. Í réttstöðulyftunni endaði hún með 230 kg og samanlagður árangur hennar var 565 kg sem gera hana að silfurverðlaunahafa á sterkasta heimsmeistaramóti í klassískum kraftlyftingum frá upphafi.

Viktor Samúelsson átti mjög góðan dag á mótinu en hann lyfti af miklu öryggi og fékk allar sínar lyftur gildar. Viktor sem keppti í -105 kg flokki lyfti 290 kg í hnébeygju, sem er jöfnun á hans eigin Íslandsmeti og tók svo 200 kg í bekkpressunni. Í réttstöðulyftu fóru 322.5 kg upp hjá honum og samanlagður árangur hans var því 812.5 kg sem er nýtt Íslandsmet. Þessi árangur skilaði honum 14. sæti í þyngdarflokknum.

Yngsti íslenski keppandinn var Alexander Örn Kárason, 25 ára gamall og var að keppa á sínu öðru heimsmeistaramóti í opnum flokki. Alexander keppti í -93 kg flokki en hann á flest Íslandsmetin í þessum þyngdarflokki þrátt fyrir ungan aldur. Hann lyfti 265 kg í hnébeygju, 175 kg í bekkpressu og 280 kg í réttstöðulyftu sem gerir 720 kg í samanlögðum árangri. Þetta gaf honum 31. sætið í fjölmennasta þyngdarflokki mótsins.

Kraftlyftingsamband Íslands óskar keppendum og aðstoðarfólki þeirra til hamingju með árangurinn.