Skip to content

Evrópumeistaramót unglinga í klassískum kraftlyftingum – Helgi Jón og Sebastiaan

Tveir síðustu í íslenska hópnum mættu á pallinn í morgun. Það voru kapparnir Helgi Jón Sigurðsson og Sebastiaan Dreyer. Báðir keppa í -120 kg unglingaflokki.

Sebastiaan átti frábæra hnébeygju session. Hann opnaði á heldjúpri 290 kg lyftu sem flaug upp. Önnur hnébeygjan hreyfðist jafnvel þar sem 307,5 kg voru á stönginni. Í þriðju hnébeygjunni hækkaði Sebastiaan upp í 320 kg og kláraði beygjuna glæsilega og ný Íslandsmet í unglingaflokki og opnum flokki komið í hús. Þessi lyfta tryggði Sebastiaan brons í hnébeygju ! Sebastiaan opnaði í bekkpressu með 170 kg sem hreyfðust þægilega sem og önnur bekkpressan með 180 kg. Í þriðju bekkpressunni hækkaði Sebastiaan um 2,5 kg en 182,5 kg vildu ekki fara upp að þessu sinni. Sebastiaan opnaði í réttstöðulyftu á 270 kg sem eru aðeins 7,5 kg undir hans besta og kláraði hana örugglega. Í annarri lyftu reyndi Sebastiaan við 5 kg persónulega bætingu með 282,5 kg á stönginni en því miður þá gaf gripið sig í blálokin. Í lokalyftunni var sama þyngd á stönginni en Sebastiaan náði ekki að klára lyftuna. Samanlagður árangur varð 770 kg. Innilega til hamingju með mótið, Íslandsmetin og bronsið, Sebastiaan !

Helgi Jón opnaði í hnébeygju með léttri 290 kg beygju. Það var hækkað upp í 307,5 kg, jöfnun á hans besta, en Helgi Jón náði því miður ekki að klára lyftuna. Í þriðju hnébeygju reyndi Helgi Jón aftur við sömu þyngd og kláraði hana örugglega að þessu sinni.  Helgi Jón opnaði í bekkpressu með 185 kg. Því miður þá náði Helgi Jón ekki að klára lyftur tvö og þrjú þar sem hann reyndi við 192,5 kg, sem eru rétt undir hans besta. Í réttstöðulyftu opnaði Helgi Jón örugglega með 300 kg á stönginni. Í annarri umferð hækkaði Helgi Jón í 320 kg sem hann kláraði örugglega og þar með nýtt Íslandsmet í unglingaflokki. Í lokalyftu voru 330 kg sett á stöngina en hún vildi ekki hreyfast frá gólfi. Samanlagður árangur varð 812,5 kg sem er nýtt Íslandsmet í unglingaflokki og opnum flokki. Innilega til hamingju með mótið og Íslandsmetin, Helgi Jón !