Skip to content

Arnhildur og Einar bikarmeistarar í klassík

  • by

Bikarmót KRAFT í klassískum kraftlyftingum var haldið í fyrsta sinn í dag. Mótið fór fram á Seltjarnarnesi í umsjón Gróttu. Tæplega 40 manns voru mættir til leiks og fór mótið fram á tveimur keppnispöllum samtímis. Þó nokkur Íslandsmet voru slegin, í opnum sem og aldurstengdum flokkum, ásamt einu Norðurlandameti. Arnór Gauti Haraldsson tvíbætti Norðurlandamet drengja (14-18) með 192,5 kg og 200 kg í hnébeygju.

Stigahæstu keppendur mótsins í karla- og kvennaflokki voru krýndir Bikarmeistarar í klassískum kraftlyftingum. Þeir fengu afhenda veglega farandbikara auk bikara til eignar.

Bikarmeistari kvenna varð Arnhildur Anna Árnadóttir, Gróttu, með 383,1 Wilksstig. Arnhildur tók mest 145 kg í hnébeygju, 82,5 kg í bekkpressu og tvíbætti svo Íslandsmetið í réttstöðulyftu með 160 kg í annarri tilraun og 165 kg í þeirri þriðju. Samanlagður árangur hennar, 392,5 kg, er einnig bæting á Íslandsmeti.

Bikarmeistari karla varð Einar Örn Guðnason, Kraftlyftingafélagi Akraness, með 438,1 Wilksstig. Einar bætti Íslandsmet í öllum greinum. Í hnébeygju tók hann 260 kg, í bekkpressu endaði hann með 183 kg og í réttstöðulyftu tvíbætti hann metið með 270 kg í annarri tilraun og 280 kg í þeirri þriðju.

Veitt voru verðlaun fyrir stigahæstu lið mótsins í karla- og kvennaflokki. Liðabikar kvenna sigraði fjölmenn kvennasveit Gróttu örugglega með 51 stigi. Liðabikar karla sigraði karlasveit Kraftlyftingafélags Akraness örugglega með 52 stigum.

Úrslit í einstökum þyngdarflokkum og þau Íslandsmet sem voru slegin er að finna í heildarúrslitum mótsins í gagnabanka KRAFT.