Skip to content

Arnhildur hefur lokið keppni

  • by

Arnhildur Anna Árnadóttir átti ekki góðan dag á HM unglinga í dag þar sem hún keppti í -72 kg flokki. Hún náði ekki að klára mótið, fékk 3 gildar lyftur af 9 og féll úr í bekkpressu.
Arnhildur opnaði á 190 kg í hnébeygju og átti tvær góðar tilraunir við bætingu í 197,5 kg en það reyndist of þungt.
Í bekkpressu gekk ekkert upp, hún átti þrjár misheppnaðar tilraunir við 105 kg og féll með því úr keppni.
Hún hélt áfram og tók 165 – 172,5 í réttstöðu og sá smugu til að komast í verðlaunasæti í greininni með 187,5 kg. Hún reyndi við þyngdina, en það hafðist ekki.

Svíar gjörsigruðu flokkinn. Heimsmeistari varð Marie Tunroth með 552,5 kg á undan löndu sinni Elina Rønnquist.

Næstur á keppnispall fyrir Ísland er Einar Örn Guðnason. Hann keppir á morgun, föstudag, í -93 kg flokki unglinga og hefst keppnin 14.30 að staðartíma.