Júlían var síðasti Íslendingurinn sem steig á keppnispall í Rússlandi en EM unglinga lauk í dag með keppni í -120 og +120kg flokki.
Mótið byrjaði mjög vel hjá Júlíani sem fékk allar sínar lyftur gildar í hnébeygjunni. Hann byrjaði á 340 kg sem voru mjög létt hjá honum og tók svo 352,5 í annarri lyftu. Í þriðju tilraun beygði hann svo 362,5 sem er nýtt íslandsmet unglinga og bætti þar með sinn persónulega árangur um 7,5 kg. Þessi þyngd gaf honum einnig verðskulduð bronsverðlaun í hnébeygjunni.
Í bekkpressunni byrjaði hann á 260 kg en fékk ógilt þar sem hann náði ekki alveg að læsa handleggjunum í lok lyftunnar. Hann fór aftur í sömu þyngd og lyfti henni mjög örugglega í annarri tilraun. Hann reyndi svo við íslandmet 267,5 kg í seinustu lyftunni en náði því ekki í dag, þótt hann væri mjög nálægt því.
Í réttstöðunni opnaði Júlían á 320 kg sem flugu upp á ljóshraða og meldaði þar næst 337,5 kg. Hann þurfti þó því miður að sætta sig við byrjunarþyngdina 320 kg eftir að hafa mistekist tvisvar við 337,5 kg og tapaði þar með mörgum kílóum inn í totalið sitt. Það kom hins vegar ekki að sök því samanlagður árangur hans 942,5 kg og nýtt íslandsmet, tryggði honum örugg bronsverðlaun sem er glæsilegur árangur.
Sigurvegari í flokknum var David Lupac með 1052,5 kg.
Við óskum Júlíani til hamingju með góðan árangur, tvenn bronsverðlaun og íslandmetin.