Í gær fór fram Íslandsmótið í bekkpressu sem haldið var á Reykjavík International Games en mótið var líka alþjóðleg keppni á stigum, þar sem íslenskir keppendur öttu kappi við erlenda keppendur í heimsklassa. Tveir keppendur frá Noregi kepptu á mótinu, þau Hildeborg Hugdal heimsmethafi og heimsmeistari í bekkpressu og Alastair McColl silfurverðlaunahafi frá EM í bekkpressu. Úrslitin hjá konunum komu ekki á óvart en Hildeborg Hugdal varð stigahæst yfir alla kvennaflokka en hún lyfti 197,5 kg í +84 kg flokki. Einnig átti hún góða tilraun við 207,5 kg en það fór ekki upp í dag. Fanney Hauksdóttir úr Gróttu varð önnur á stigum með 100 kg lyftu í 63 kg flokki sem var jafnframt besti árangur íslensku kvennanna. María Guðsteinsdóttir úr Ármanni varð svo í þriðja sæti í stigakeppninni. Í karlaflokkunum var keppnin mjög spennandi og lágu allmörg íslandsmet í valnum. Í 83 kg flokki tvíbætti Aron Du Lee Teitsson úr Gróttu sitt eigið íslandsmet en hann lyfti 215 kg. Menn skiptust svo á að taka íslandsmetin í 105 kg flokki en í lokin var það Ingimundur Björgvinsson úr Gróttu sem endaði með mestu þyngdina 240 kg, en hann varð jafnframt þriðji stigahæsti maður mótsins. Annar á stigum en bestur Íslendinganna varð hins vegar Sigfús Fossdal sem háði skemmtilegt einvígi við Norðmanninn Alastair McColl í +120 flokki. Fór það svo að Alastair hafði betur með 310 kg lyftu og varð stigahæstur allra karlkeppenda en Sigfús náði öðru sætinu á stigum á nýju íslandsmeti 305 kg. Í liðakeppninni sigraði svo lið Gróttu með fullt hús stiga. Nánari úrslit eru komin í gagnabanka KRAFT á síðunni.