Kolbrún Katla Jónsdóttir sló lokatóninn hjá íslenska liðinu á HM unglinga með glæsilegri frammistöðu. Kolbrún sem keppti í +84 kg flokki byrjaði vel í hnébeygjunni þar sem hún lyfti seríunni 195-207.5-217.5 en síðasta lyftan hennar er nýtt Íslandsmet í opnum flokki. Í bekkpressu lyfti hún 85-90-92.5 og bætti þar sinn persónulega árangur um 2.5 kg. Réttstaðan gekk líka vel þar sem hún opnaði á 180 kg og tók svo 190 kg í annarri lyftu. Kolbrún reyndi svo við 197.5 kg í síðustu tilraun og var hársbreidd frá því að klára lyftuna. Það lítur því allt út fyrir það að 200 kg múrinn muni falla hjá henni í réttstöðunni fyrr en seinna. Samanlagt lyfti Kolbrún 500 kg og endaði í 6. sæti í flokknum.
Til hamingju með árangurinn!