Skip to content

Eitt silfur og þrjú brons á Vestur-Evrópumótinu í klassískum kraftlyftingum.

Átta íslenskir keppendur luku keppni í klassískum kraftlyftingum á öðrum degi Vestur-Evrópumótsins. Var árangurinn í heildina góður og náði hópurinn að sópa að sér mörgum verðlaunum.

Ragnhildur Marteinsdóttir sem keppti í -76 kg flokki, byrjaði brösuglega í hnébeygjunni sem kom þó ekki að sök, því í heildina átti hún mjög góðan dag á keppnispallinum. Ragnhildur bætti sig í öllum greinum og stóð uppi sem silfurverðlaunahafi í flokknum með 370 kg í samanlögðum árangri. Sigurvegari í flokknum var Megan Fitzpatrick frá Írlandi með 405 kg í heildarárangri.

Þorbjörg Matthíasdóttir í +84 kg flokki sló heldur ekki slöku við og var með persónulega bætingu bæði í bekkpressu og samanlögðum árangri. Hafnaði hún í þriðja sæti í flokknum með heildarárangur upp á 457.5 kg og fór heim með bronsverðlaunapening. Sigurvegari í flokknum var hin breska Aquinn Omeoha með 537.5 kg í samanlögðum árangri.

Alexander Kárason blandaði sér strax í baráttu um verðlaun, en rétt missti af bronsi í hnébeygju til Hollendingsins Jody de Ruiter. Hann bætti sér það þó upp með persónulegri bætingu, bæði í bekkpressu og réttstöðulyftu og náði jafnframt bronsverðlaunum fyrir bekkpressuna. Samanlagður árangur hans var 777.5 kg sem er nýtt Íslandsmet í -93 kg flokknum og skilaði honum þriðja sætinu og bronsi fyrir heildarárangur.

Viktor Samúelsson keppti í -105 kg flokki og hafnaði í 4. sæti í flokknum með 790 kg í samanlögðum árangri. Náði hann góðum árangri í bekkpressu, þar sem hann vann til silfurverðlauna og í réttstöðulyftu þar sem hann hlaut brons.

Jón Dan Jónsson keppti einnig í -105 kg flokki og var að keppa á sínu öðru alþjóðamóti. Hafnaði hann í 9. sæti með 690 kg í samanlögðum árangri. Sigurvegari í flokknum varð Sanches Dillon frá Bretlandi.

Aron Friðrik Georgsson keppti í -120 kg flokki og hafnaði þar í 4. sæti með 777.5 kg í samanlögðum árangri. Hann fór þó ekki tómhentur heim af mótinu því hann nældi sér í bronsverðlaun í bekkpressunni með 190 kg lyftu.

Filippus Darri Björgvinsson keppti líka í-120 kg flokki og var að keppa í annað sinn á Vestur-Evrópumóti. Náði hann 6. sætinu í flokknum með samanlagðan árangur upp á 730 kg.

Þorsteinn Ægir Óttarsson keppti í +120 kg flokki og vann til bronsverðlauna í flokknum með 827.5 kg í samanlögðum árangri. Bætti hann árangur sinn í hnébeygju og beygði heil 332,5 kg sem er nýtt Íslandsmet í opnum flokki. Beygjan er sú þyngsta sem hefur verið tekin innan Kraft í klassískum kraftlyftingum og jafnframt sú stigahæsta. Þá hlaut Þorsteinn einnig silfur í hnébeygju og brons fyrir bekkpressu og réttstöðulyftu.