Skip to content

Júlían með silfurverðlaun

Júlían JK Jóhannsson keppti í dag á HM í klassískum kraftlyftingum sem var haldið í Calgary, Kanada. Júlían keppti í +120kg flokknum en hann hefur á bakinu langan keppnisferil í kraftlyftingum. Hann breytti þó til núna og er þetta hans fyrsta heimsmeistaramót í klassískum kraftlyftingum. Júlían mætti í anda og lyfti 325kg í hnébeygjunni. Í bekkpressunni lyfti hann svo 205kg. Í réttstöðulyftunni fór hann svo nokkuð léttilega með 365kg. Þá bað hann um 380kg á stöngina sem hefði verið nýtt evrópumet í réttstöðulyftu. Því miður missti hann takið á stönginni þegar hún var komin langleiðina upp. 365kg lyftan dugði þó til silfurverðlauna í réttstöðulyftunni. Þetta gaf honum 895kg í samanlögðu sem er aðeins undir hans besta árangri.

Kraftlyftingasamband Íslands óskar honum innilega til hamingju með árangurinn!

Júlían með 380kg í höndunum – Grátlega nálægt því að læsa lyftunni

Þar með lýkur HM í klassískum kraftlyftingum. Fyrir hönd íslands tóku þátt 7 konur og 1 karl og stóðu þau sig öll frábærlega. Að ferðast erlendis og keppa er öðruvísi en að keppa innanlands og getur það haft áhrif á keppnisform keppenda. Þar kemur inn annað tímabelti, annað matarræði og ólíkar aðstæður.