Vegna umfjöllunar í Íslandi í dag á Stöð 2 þann 1. nóvember sl. um keppanda í kraftlyftingum sem er á leið á heimsmeistaramót í kraftlyftingum sem fram fer í Las Vegas um helgina vill Kraftlyftingasamband Íslands (KRAFT) koma því á framfæri að það mót heyrir ekki undir KRAFT og er ekki viðurkennt mót innan Alþjóða kraftlyftingasambandsins (IPF). IPF er æðsti aðili kraftlyftinga í heiminum og er einn bær til þess að halda heimsmeistaramót í kraftlyftingum. Ekki er um að ræða landsliðsmann á vegum KRAFT og hefur hann ekki unnið sér inn þátttökurétt í gegnum viðurkennd mót á vegum KRAFT og ÍSÍ.
KRAFT er æðsti aðili kraftlyftinga á Íslandi og er hlutverk þess m.a. að vinna að eflingu kraftlyftinga í landinu, að standa vörð um uppeldislegt gildi kraftlyftinga á Íslandi og tefla fram landsliðum og keppendum í alþjóðlegum og viðurkenndum keppnum. Kraftlyftingasamband Íslands er sérsamband innan Íþrótta- og ólympíusambands Íslands og á jafnframt aðild að Kraftlyftingasambandi Norðurlanda (NPF), Kraftlyftingasambandi Evrópu (EPF) og Alþjóða Kraftlyftingasambandinu.
Kraftlyftingar voru stundaðar á Íslandi á vegum ÍSÍ fram til ársins 1985 þegar kraftlyftingamenn sögðu skilið við Lyftingasamband Íslands og stofnuðu eigin félagsskap undir nafninu Kraftlyftingasamband Íslands, en utan ÍSÍ. Það samband var síðan lagt niður árið 2008 og í kjölfarið setti ÍSÍ á fót sérnefnd fyrir kraftlyftingar. Með stofnun Kraftlyftingasambands Íslands (KRAFT) innan ÍSÍ árið 2010 öðluðust kraftlyftingar á nýjan leik sæti meðal viðurkenndra íþróttagreina í landinu. Eru kraftlyftingar sú íþróttagrein sem hefur vaxið hvað mest innan ÍSÍ á undanförnum árum og er sambandið nú, þrátt fyrir ungan aldur flokkað sem afrekssamband innan ÍSÍ, skv. nýlegri flokkun Afrekssjóðs ÍSÍ.
Til þess að geta talist aðilar að KRAFT og þar með öðlast keppnisrétt fyrir hönd sambandsins þurfa félög að vera viðurkennd aðildarfélög innan ÍSÍ. Strangar reglur gilda um kraftlyftingakeppnir og keppendur, þ.e. lög og reglugerðir KRAFT, ÍSÍ og IPF. Þannig er t.d. engum félagsmanni í aðildarfélagi að KRAFT heimilt, án sérstaks leyfis KRAFT að keppa, dæma, starfa eða aðstoða keppendur á kraftlyftingamótum, innanlands eða erlendis sem haldin eru á vegum aðila sem ekki eru innan KRAFT eða undir lögsögu IPF. Þá er stefna KRAFT í lyfjamálum skýr og áberandi í öllu starfi innan sambandsins. Strangar reglur gilda um þau mál og sér Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ um framkvæmd lyfjaeftirlits meðal íþróttafólks sambandsins. Starfar nefndin samkvæmt reglum Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunarinnar, WADA.
Kraftlyftingasamband Íslands er afar stolt af keppendum sínum og þeim frábæra árangri sem náðst hefur á alþjóðlegum vettvangi á undaförnum árum. Slíkur árangur næst hins vegar ekki nema með markvissri vinnu, stuðningi við íþróttafólkið og eftirfylgni og hefur sambandið mótað metnaðarfulla áætlun til næstu ára með það að markmiði að efla starfið enn frekar og festa kraftlyftingar í sessi sem eina af helstu afreksíþróttum landsins.