Íslandsmeistaramótin í klassískri bekkpressu og bekkpressu (með útbúnaði) fóru fram á Akranesi í dag. Í klassískri bekkpressu urðu stigahæst þau Ingimundur Björgvinsson og Fanney Hauksdóttir, bæði úr Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur. Í bekkpressu (með útbúnaði) bar heimamaðurinn Einar Örn Guðnason sigur úr býtum í karlaflokki og Sóley Margrét Jónsdóttir frá Kraftlyftingafélagi Akureyrar í kvennaflokki.
ÍM í klassískri bekkpressu
Stigahæst kvenna varð Fanney Hauksdóttir (KFR) sem sigraði í 63 kg flokki kvenna með 107,5 kg lyftu og 115,9 Wilksstig. Stigahæstur karla varð Ingimundur Björgvinsson (KFR) sem sigraði í 105 kg flokki karla á nýju Íslandsmeti með 200 kg og 120,7 Wilksstig.
Fleiri met féllu í klassískri bekkpressu á Akranesi. Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir (KFR) setti nýtt með í klassískri bekkpressu þegar hún lyfti 81 kg í 57 kg fl. Viktor Ben Gestsson (KFR) tók metið í +120 kg fl. (opnum aldursflokki og U23) með 205 kg. Sóley Margrét Jónsdóttir (KFA) setti nýtt met í +84 kg flokki U18 og U23 með 82,5 kg.
ÍM í bekkpressu (með útbúnaði)
Stigahæst kvennar varð Sóley Margrét Jónsdóttir (KFA) sem sigraði +84 kg flokk kvenna á nýju Íslandsmeti í U18 og U23. Hún lyfti mest 120 kg og hlaut 100,7 Wilksstig. Stigahæstur karla varð Einar Örn Guðnason (AKR), sem sigraði í 105 kg flokki karla með 245 kg og 146,6 Wilksstig.
Sundurliðuð úrslit
[Uppfært 12.09: Einar Örn lyfti 245 kg í bekkpressu en ekki 225 kg eins og upphaflega var haldið fram]