Skip to content

Þorsteinn Ægir og Þorbjörg hafa lokið keppni.

Á lokadegi EM í klassískum kraftlyftingum voru það Þorbjörg Matthíasdóttir og Þorsteinn Ægir Óttarsson sem tóku á því á keppnispallinum.

Þorbjörg sem keppir í +84 kg flokki byrjaði á 182.5 kg í hnébeygju en mistókst við 190 kg í annarri tilraun. Hún var þó ekki á því að gefast upp og fór aftur í sömu þyngd í þriðju tilraun og náði þá að lyfta þyngdinni af mikilli hörku. Í bekkpressu lyfti hún þyngst 97.5 kg og 177.5 kg fóru upp í réttstöðulyftunni og var hún þar alveg við sinn besta árangur í báðum greinunum. Samanlagt lyfti hún 465 kg og endaði í 7. sæti í flokknum. Sigurvegari varð hin belgíska Sonita Muluh með 676 kg í samanlögðum árangri.

Þorsteinn Ægir í +120 kg flokki byrjaði vel í hnébeygjunni með opnunarþyngd upp á 315 kg en mistókst því miður tvívegis við 325 kg. Hann bætti sér það hins vegar upp í bekkpressunni með persónulegri bætingu uppá 2.5 kg þegar sem hann lyfti 200 kg. Í réttstöðu lyfti hann mest 300 kg sem er mjög nálægt hans besta árangri og gerði svo atlögu að 310 kg í þriðju tilraun sem hefði verið bæting en hafðist þó ekki í dag. Samanlagt lyfti hann 815 kg sem gaf honum 5. sætið. Sigurvegari varð Temur Samkharadze frá Georgíu með 1063.5 kg í samanlögðum árangri.

Til hamingju Þorbjörg og Þorsteinn!