Í tengslum við HM í kraftlyftingum verður haldið heimsmeistaramót á vegum Alþjóða kraftlyftingasambandsins og Special Olympics International og er ánægjulegt að segja frá því að þar á Ísland nokkra fulltrúa. Fyrir hönd Íslands mæta sjö keppendur á Special Olympics, fjórar konur og þrír karlar. Þau keppa öll föstudaginn 15. nóvember og hefst keppni kl. 14:00.
Aníta Ósk Hrafnsdóttir keppir í -63 kg flokki en hún hefur ekki bara æft og keppt í kraftlyftingum því hún hefur einnig verið ötul keppniskona í frjálsum íþróttum og m.a. keppt í hlaupagreinum og langstökki.
Guðrún Hulda Sigurjónsdóttir keppir í +84 kg flokki en hún hefur samhliða kraftlyftingum einnig æft og náð góðum árangri í kastgreinum, bæði í kúluvarpi og í sleggju- og kringlukasti.
María Sigurjónsdóttir er keppandi í +84 kg flokki en hún keppti í kraftlyftingum á Special Olympics 2019 og 2022. Þá keppti hún líka árið 2023 á Special Olympics World Games þar sem hún vann til tvennra gull- og silfurverðlauna.
Sigríður Sigurjónsdóttir keppir í +84 kg flokki og er einnig að æfa frjálsar íþróttir samhliða kraftlyftingaiðkun þar sem hún keppir í kúluvarpi og sleggjukasti.
Þess má geta að Guðrún Hulda, María og Sigríður eru allar systur sem keppa í sama þyngdarflokki þannig að það stefnir í spennandi systraeinvígi á milli þeirra. Hér má sjá nánari umfjöllun um þær systur => VIÐTAL
Guðfinnur Vilhelm Karlsson keppir í -93 kg flokki en hann hefur einnig æft sund um árabil og keppt á mörgum sundmótum á alþjóðavettvangi.
Sigurjón Ólafsson er keppandi í -93 kg og keppti á Special Olympics árið 2023 og eins á Special Olympics World Games sama ár þar sem hann stóð sig með prýði.
Emil Steinar Björnsson keppir í -120 kg flokki en hann æfir líka kastgreinar og hefur unnið til verðlauna, bæði í kúluvarpi, sleggjukasti og kringlukasti.
Áfram Ísland!