Máni Freyr Helgason lauk í dag keppni á HM unglinga í klassískum kraftlyftingum og stóð sig með prýði á sínu fyrsta alþjóðamóti. Máni sem keppti í -83 kg flokki unglinga, tók mest 230 kg í hnébeygju, sem var persónuleg bæting hjá honum um 15 kg og í bekkpressu bætti hann sig um 5 kg þegar hann lyfti 155 kg. Í réttstöðulyftu bætti hann svo eigið Íslandsmet um 5 kg með lyftu upp á 277.5 kg og nokkuð ljóst að það styttist í 300 kg múrinn hjá honum. Samanlagður árangur hans var 662.5 kg sem er 20 kg bæting á sjö ára gömlu Íslandsmeti Dagfinns Ara Normann og skilaði þetta honum 18. sætinu í flokknum af 27 keppendum. Frammistaða Mána lofar því svo sannarlega góðu fyrir framhaldið og það verður gaman að fylgjast með honum á næstu mótum.