Kristín Þórhallsdóttir hefur lokið keppni á EM í klassískum kraftlyftingum og kemur heim hlaðin verðlaunapeningum og ekki í fyrsta sinn. Kristín, sem er núverandi Evrópumethafi í hnébeygju keppti í –84 kg flokki byrjaði á því að lyfta 215 kg í hnébeygju og hlaut silfurverðlaun í þeirri grein. Í bekkpressu vann hún til bronsverðlauna með 117.5 kg lyftu og í réttstöðulyftu fór hún upp með 220 kg. Samanlagt lyfti hún 552.5 kg og hlaut bronsverðlaun fyrir samanlagðan árangur.
Eftir tvær fyrstu greinarnar var Kristín með 5 kg forskot á Ziana Azariah frá Bretlandi sem var hennar helsti keppinautur. En eftir fyrstu lyftuna í réttstöðulyftu breyttist staðan á þann veg að Ziana sem lyfti mjög hárri byrjunarþyngd var nú 20 kg á undan Kristínu. Það leit því allt út fyrir það að Kristín og Temitopi Nuga frá Bretlandi myndu berjast um silfrið í heildarárangri, enda fór það svo að þær voru hnífjafnar eftir að 2. umferð var lokið í réttstöðunni. Kristín náði því miður ekki að klára lokalyftuna sína 230 kg og því ljóst að bronsið kæmi í hennar hlut fyrir samanlagðan árangur því Temitope lyfti samanlagt sömu þyngd og Kristín en vann silfrið út á léttari líkamsþyngd.
Sigurvegari í flokknum varð Ziana Azariah frá Bretlandi með 581 kg í samanlögðum árangri. Við óskum Kristínu bronsverðlaunahafa til hamingju með öll verðlaunin.