Nú er undirbúningur hafinn fyrir það að koma kraftlyftingum inn á Smáþjóðaleikana en fyrsti liðurinn í því ferli er keppni sem fer fram milli smáþjóðanna dagana 28. febrúar til 2. mars. Mótið sem fer fram í Lúxemborg er um leið minningarmót um Marion Hammang kraftlyftingakonu sem náði þeim árangri að verða bæði Evrópu- og heimsmeistari á ferli sínum. Keppt verður í klassískum kraftlyftingum og þær þjóðir sem taka þátt í Smáþjóðaleikamótinu eru Ísland, Kýpur, Lúxemborg, Andorra og Malta. Þar að auki mæta keppendur frá Skotlandi, Englandi, Mön, Wales og Norður-Írlandi sem munu keppa á minningarmótinu.
Fyrir hönd Íslands keppir Elín Melgar Aðalheiðardóttir í -69 kg flokki en hún stígur á keppnispallinn laugardaginn 1. mars kl. 10:00 að íslenskum tíma. Upplýsingar um beina útsendingu frá mótinu koma síðar.