Skip to content

Kraftlyftingafólk ársins 2019

  • by

Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands hefur valið kraftlyftingakonu og kraftlyftingakarl ársins 2019 og urðu fyrir valinu þau Sóley Margrét Jónsdóttir, KFA og Júlían J. K. Jóhannsson, Ármanni.

Sóley Margrét er fædd 2001 og er nú í fyrsta sinn valin kraftlyftingakona ársins. Frá því hún byrjaði að keppa í kraftlyftingum hefur verið greinilegt að hún er gífurlega efnilegur keppandi og á framtíðina fyrir sér.
Sóley lýkur sínu síðasta keppnistímibili í stúlknaflokki 18 ára og yngri í ár, en í þeim aldurshópi hefur hún haft mikla yfirburði og er rikjandi Heims- og Evrópumeistari í +84 kg flokki. Hún setti á árinu heimsmet stúlkna í hnébeygju með 265,5 kg. Hún varð Íslandsmeistari og bikarmeistari í opnum flokki á árinu 2019 en hún keppir í +84 kg. flokki og á öll Íslandsmet í kraftlyftingum í flokknum.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Sóley náð afrekslágmörkum í opnum flokki og keppti á HM í Dúbai í nóvember 2019 þar sem hún hafnaði í 7.sæti í sínum flokki. Árangur hennar hefur tryggt henni 7. sæti á heimslista Alþjóðakraftlyftingasambandsins í +84kg. flokki.

Júlían J K Jóhannsson er fæddur 1993 og er nú í fimmta sinn valinn kraftlyftingamann ársins, en hann hefur haslað sér völl sem einn af sterkustu keppendum heims í +120 kg flokki.
Júlían vann bronsverðlaun fyrir samanlagðan árangur á heimsmeistaramóti í Dubai í nóvember sl. en þar bætti hann jafnframt sitt eigið heimsmet í réttstöðulyftu með 405,5 kg. og tryggði sér gullverðlaun í greininni. Heildarþyngdin sem Júlían lyfti á heimsmeistaramótinu voru 1148 kg. en það er mesta þyngd sem íslenskur kraftlyftingamaður hefur lyft. Í maí sl. hlaut Júlían silfurverðlaun á Evrópumeistarmóti fyrir samanlagðan árangur en hlaut þar einnig gull í réttstöðu. Hann lýkur í ár sínu þriðja keppnistímabili í opnum flokki og er í þriðja sæti á heimslista Alþjóðakraftlyftingasambandsins í +120kg. flokki.

.