Við höldum áfram umfjöllun um kraftlyftingafélög landsins og nú er komið að Ármanni.
Glímufélagið Ármann var stofnað 1888 og er í hópi elstu félagasamtaka landsins. Innan félagsins var stofnuð kraftlyftingadeild 2009. Ármann var eitt af stofnfélögum KRAFT, heyrir undir ÍBR og var lengi vel eina kraftlyftingafélagið í höfuðborginni.
Ingimundur Björgvinsson var kjörinn formaður á stofnfundi en María Guðsteinsdóttir tók fljótlega við af honum. Í dag er Helgi Briem formaður. Með honum í stjórn eru María Guðsteinsdóttir, Júlían J. K. Jóhannsson, Bjarni Þór Einarsson, Ingimundur Ingimundarson, Eiríkur Jónsson og Þórunn Lilja Vilbergsdóttir.
Skráður fjöldi iðkenda er í dag 134. Helstu afreksmenn eru Júlían Jóhannsson, íþróttakarl Reykjavíkur 2016 og María Guðsteinsdóttir sem var helsta kraftlyftingakona Íslands í áratug, en fleiri Ármenningar hafa verið duglegir að æfa og keppa og hafa landað bæða íslandsmeistara- og bikarmeistaratitlum fyrir félagið.
Deildin æfði fyrst í íþróttamiðstöðinni Laugaból en fékk svo aðstöðu í Djúpinu, í kjallara Laugardalslaugar. Þar deilir hún plássið með lyftingadeild félagsins og fer ágætlega á með þeim. Deildin er vel búin tækjum og lóðum. Meðlimir borga æfingargjald sem er 20.000 kr fyrir 6 mánuði. Innifalið í því er æfingaaðstaða, keppnisgjöld á innanlandsmót, aðgangur að sundlaug og gufubaði.
Æfingaaðstaðan fylgir opnunartimum laugarinnar – opnar við fyrsta hanagal og er opin til kl. 22.00 sjö daga vikunnar. Opnunartímar eru líka rúmir yfir hátíðardaga. Fastir æfingartímar eru á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 16 – 18 en þess fyrir utan mæla menn sér gjarnan mót til að æfa saman. Kvennalið deildarinnar er á hraðri uppleið undir heitinu Ár-MAN og hefur skipulagt æfingar og ýmisleg annað sérstaklega ætlað konum í kraftlyftingum.
Helgi Briem hefur veitt byrjendum leiðsögn en fleiri innan félagsins eru með þjálfararéttindi og mikla reynslu í að leiðbeina og aðstoða. Sex dómarar frá félaginu eru skráðir á dómaralista KRAFT.
Samstarf við móðurfélagið og ÍBR hefur verið gott alla tíð. Þess má geta að það var Ármann sem hafði frumkvæðið að því að kraftlyftingaíþróttin var sett á dagskrá Reykjavíkurleikjanna á sínum tíma. Félagið hefur verið ólatt við að halda mót og fékk þann heiður að vera fyrsta félagið sem hélt alþjóðamót á Íslandi þegar það tók að sér að halda Norðurlandamót unglinga 2013. Næsta verkefni félagsins er að halda alþjóðlegt kraftlyftingamót í tengslum við RIG 2018.
Helstu framtíðarverkefni stjórnar er að finna leiðir til að fjölga iðkendum og keppendum og byggja upp öfluga liðsheild til keppnis innan- og utanlands.
Upplýsingar um starfið má finna á heimasíðu Ármanns og á facebooksíðu Kraftlyftingadeildar Ármanns.