María Guðsteinsdóttir, Ármanni, hélt upp á 10-ára keppnisafmæli sitt á Selfossi í dag með því að verða íslandsmeistari í réttstöðulyftu. Hún lyfti 176,0 kg í -63,0 kg flokki, en það er nýtt Íslandsmet. Fyrir þessa lyftu hlaut hún 190,168 stig.
María er glæsilegur fulltrúi kraftlyftingamanna og við óskum henni til hamingju bæði með titilinn og “afmælið”.
Í öðru sæti hafnaði Hulda B. Waage, Breiðablik, sem lyfti 170,0 kg í -73,0 kg flokki og hlaut 167,97 stig. Hulda tapaði baráttunni við 180,0 kg í þetta sinn, en hefur væntanlega ekki sagt sitt síðasta.
Í þriðja sæti varð svo Jóhanna Eivinsdóttir, Selfossi, sem lyfti 167,5 kg í -84,0 kg flokki.
Þyngsta lyftan í kvennaflokki átti Rósa Birgisdóttir, Selfossi, sem lyfti 188 kg í +84,0 kg flokki, en það er nýtt Íslandsmet.
Í karlaflokki tefldi Ungmennafélag Selfoss fram sína tvo bestu menn, Stefán Blackburn og Árni Steinarsson í -105,0 flokki. Þeir lyftu báðir 290,0 kg, en Stefán vigtaðist léttari og vann með því stigaverðlaun karla með 175,07 stig. Árni hlaut 173,47 stig í öðru sæti, en þriðji í stigakeppni karla varð hinn síungi Halldór Eyþórsson, Breiðablik, með 170,28 stig. Halldór lyfti 252,5 kg í -83,0 flokki.
Halldór er formaður kraftlyftingadeildar Breiðabliks og gat þess vegna líka fagnað sigri í liðakeppninni. Breiðablik endurtók leikinn frá Bikarmótinu um daginn og sigarði í liðakeppni mótsins.
Það er hinsvegar opinbert leyndarmál að eftir þetta mót standa Massamenn uppi með flest stig ársins og munu geta tekið við bikarinn sem kraftlyftingafélag 2011 í lok ársins. Það er gaman að sjá hvernig stigakeppnin eflir liðsandann og hvetur menn til þátttöku og baráttu fyrir sitt félag.
Að lokum ber að nefna Katrínu Atladóttur frá Gróttu sem hlaut tilþrifabikar mótsins. Hún lenti í þriðja sæti í -63,0 með því að klára 130,0 kg í þriðju tilraun af miklum eldmóði.
Dómarar á mótinu voru Helgi Hauksson, Klaus Jensen, Skúli Óskarsson og Sigmundur Bjarnason. Ritari var Gry Ek og þulur Júlían J.K. Jóhannsson.
Heildarúrslit