Skráning er hafin á Íslandsmótið í klassískum kraftlyftingum sem haldið verður laugardaginn 26. október. Mótshaldari er Lyftingadeild Stjörnunnar og fer mótið fram í íþróttahúsinu í Miðgarði að Vetrarbraut 18, Garðabæ. Endanleg tímasetning verður auglýst síðar þegar skráningu er lokið og keppendafjöldi liggur fyrir.
ATHUGIÐ VEL: Minnt er á tilmæli stjórnar KRAFT til félaga um að stýra þátttöku á þessu móti þannig að reynslumeiri keppendur í opnum flokki séu í forgangi en byrjendur og keppendur í öðrum aldursflokkum keppi frekar á unglinga- öldunga- og æfingamótum. Við val á keppendum má horfa til þess að viðkomandi hafi náð 70 IPF GL stigum. Sjá fyrri fréttatilkynningu um þetta: https://kraft.is/im-i-klassiskum-kraftlyftingum-tilmaeli-til-felaga-vardandi-fjolda-keppenda/
Einnig er minnt á að keppnisreglur IPF voru uppfærðar 1. janúar sl. og þar eru nýjar skorður settar varðandi aldur þátttakenda á mót í opnum flokki: Opin mót kvenna og karla eru leyfð keppendum frá 1. janúar þess almanaksárs er 19 ára aldri er náð. Keppendum í öldungaflokkum 3 og 4 er ekki heimilt að keppa í opnum flokki.
Félög skulu senda inn upplýsingar um keppendur, nafn, kennitölu, félag, aldurs- og þyngdarflokk. Einnig er nauðsynlegt að skrá alla aðstoðarmenn, nöfn þeirra og netföng ásamt símanúmeri ábyrgðarmanns skráningar. Hér er um meistaramót að ræða og gildir því sú regla að keppendur þurfa að hafa verið skráðir í félag a.m.k. þrjá mánuði fyrir mót. Ef um keppanda er að ræða sem ekki hefur keppt áður á móti hjá KRAFT þarf að fylgja með staðfesting á því hvenær viðkomandi var skráður í félagið (t.d. skjáskot úr Sportabler).
Skráningar skal senda á netfangið lyftingar@stjarnan.is með afriti á kraft@kraft.is fyrir miðnætti laugardaginn 5. október. Lokafrestur til að greiða skráningargjöld og breyta um þyngdarflokk hjá þeim sem eru skráðir til þátttöku er til miðnættis laugardaginn 12. október. Keppnisgjald er 8000 kr. og greiðist inn á reikning 552-26-007004 kt. 700410-2180.