Bikarmótið í kraftlyftingum fór fram í dag en mótið var í umsjá Lyftingafélags Hafnarfjarðar. Tuttugu og tveir keppendur mættu til leiks frá sjö félögum, sem komu víðs vegar af landinu. Fjölmörg íslandsmet voru slegin, bæði í opnum og aldurstengdum flokkum. Hulda B. Waage úr KFA setti nýtt íslandsmet í hnébeygju í -84 kg flokki með 205 kg lyftu og Sóley Jónsdóttir +84 kg, einnig úr KFA, raðaði niður fjölmörgum íslandsmetum í flokki unglinga, bæði í14-18 og 18-23 ára. Strákarnir voru líka iðnir við að bæta íslandsmetin. Einar Örn Guðnason úr Kraftlyftingafélagi Akraness setti íslandsmet í hnébeygju, bekkpressu og samanlögðum árangri í -105 kg flokki og Stjörnumaðurinn Dagfinnur Ari Normann bætti unglingametin í hnébeygju og bekkpressu í -83 kg flokki en bekkpressan var jafnframt met í opnum flokki. Þá setti Aron Ingi Gautason KFA íslandsmet í hnébeygju -74 kg flokki þegar hann lyfti 232,5 kg.
Stigahæsta konan var Hulda B. Waage úr KFA en samanlagður árangur hennar var 500 kg sem gaf henni 468,5 Wilksstig. Stigahæstur í karlaflokki var Einar Örn Guðnason á nýju íslandsmeti með 875,5 kg í samnlögðum árangri, en fyrir það fékk hann 524,6 Wilksstig. Í liðakeppninni var það svo Kraftlyftingafélag Akureyrar sem átti stigahæstu liðin, bæði í karla- og kvennaflokki.
Nánari úrslit