Júlían J. K. Jóhannsson hefur nú lokið keppni á Heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum. Mótið er hans fyrsta í opnum aldursflokki. Hann hafnaði í fimmta sæti með 1070 kg í samanlögðum árangri og náði gullverðlaunum í réttstöðulyftu með því að lyfta 380 kg, sem er nýtt Evrópumet unglinga, Norðurlandamet unglinga sem og Íslandsmet í opnum aldursflokki.
Í hnébeygju beygði Júlían 385 kg í fyrstu tilraun en mistókst svo tvívegis með 405 kg, sem hefði verið 5 kg bæting á hans besta árangri. Í bekkpressu lyfti hann 305 kg í annarri tilraun, en fékk 315 kg í þriðju ógilda á tæknigalla. Réttstaðan er svo besta grein Júlíans. Þar fór hann létt með 340 kg í fyrstu tilraun, tók svo Evrópumet unglinga með 380 kg í annarri tilraun og átti að lokum heiðarlega tilraun við Heimsmet unglinga, 390 kg, sem hann rétt missti. Með 380 kg réttstöðulyftunni tryggði Júlían sér gullverðlaun í greininni. Samanlagður árangur hans, 1070 kg, landaði honum fimmta sætinu í flokkum, sem verður að teljast frábær árangur á hans fyrsta alþjóðlega stórmóti í opnum aldursflokki. Sigurvegari flokksins var Bandaríkjamaðurinn Blaine Sumner, sem lyfti 1200 kg samanlagt.
Við óskum Júlíani til hamingju með verðlaunin og frábæra innkomu í flokk fullorðinna!