Skip to content

Heimsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum hefst eftir nokkra daga


Heimsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum er framundan en mótið fer fram í St. Julians á Möltu, dagana 11.-18. júní. Mótið er einstaklega sterkt í ár enda fjölmennasta mótið frá upphafi með um 400 keppendur skráða og frá meira en 60 löndum. Það stefnir því í gríðarlega baráttu um verðlaun í mörgum þyngdarflokkum, bæði í kvenna- og karlaflokki.

Ísland sendir öflugt og samstillt lið á mótið og að þessu sinni taka tveir karlar og ein kona þátt á mótinu. Keppendur eru Alexander Örn Kárason, Kristín Þórhallsdóttir og Viktor Samúelsson.

Fyrstur úr hópnum til að stíga á keppnispall er Alexander Örn Kárason sem keppir í -93 kg flokki. Alexander keppir nú í annað sinn í opnum flokki á heimsmeistaramóti en hann hefur nú þegar eignað sér flest Íslandsmetin í sínum þyngdarflokki og hampaði Íslandsmeistaratitli fyrr á þessu ári. Alexander keppir föstudaginn 16. júní kl. 11:00 að íslenskum tíma.

Viktor Samúelsson er reynslumikill keppandi og á langan keppnisferil að baki. Viktor sem er að keppa á sínu þriðja heimsmeistaramóti í klassískum kraftlyftingum keppir í -105 kg flokki. Hann hefur verið ötull við að setja Íslandsmet í gegnum tíðina og á fjölmörg met, bæði í -105 kg og -120 kg flokki. Hann keppti bæði á EM og HM í fyrra og hafnaði þá í 12. sæti á báðum mótunum. Viktor keppir laugardaginn 17. júní kl. 06:00 að íslenskum tíma.

Kristín Þórhallsdóttir sem var kosin kraftlyftingakona ársins 2022 á Íslandi, keppir í -84 kg flokki. Kristín er skráð með annan besta árangurinn í flokknum og mun án efa blanda sér í baráttu um verðlaun. Hún keppti á EM á síðasta ári þar sem hún vann til silfurverðlauna í samanlögðum árangri og fékk gull í hnébeygju, brons í bekkpressu og silfur í réttstöðulyftu. Á HM 2022 hlaut hún einnig silfur fyrir samanlagðan árangur og auk þess silfur í hnébeygju, silfur í bekkpressu og brons í réttstöðulyftu. Þá á hún núgildandi Evrópumet í hnébeygju sem er 230 kg og einnig öll Íslandsmetin í sínum þyngdarflokki. Á góðum degi gætu því bætingar hjá henni skilað henni nýjum alþjóðametum. Kristín keppir laugardaginn 17. júní kl. 14:30 að íslenskum tíma.

Yfirþjálfari er Auðunn Jónsson en honum til aðstoðar verða Lára Bogey Finnbogadóttir starfsmaður KRAFT og Hinrik Pálsson formaður KRAFT, sem jafnframt mun sitja ársþing Alþjóða kraftlyftingasambandsins þann 14. júní. Helgi Hauksson alþjóðadómari verður einnig með í för og mun dæma á mótinu.