Guðfinnur Snær Magnússon var síðastur íslensku keppendanna til að stíga á pall á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum. Guðfinnur sem keppti í +120 kg flokki náði góðum bætingum á mótinu og setti eitt Íslandsmet.
Í hnébeygju byrjaði Guðfinnur á 400 kg en fékk lyftuna dæmda ógilda vegna ófullnægjandi dýptar. Í annarri tilraun fór hann í sömu þyngd en fékk aftur ógilt vegna dýptar þannig að fyrir þriðju tilraun ákvað hann að þyngja upp í 417.5 kg. Með þessa þyngd á bakinu fór hann vel í dýpt og lyfti þyngdinni auðveldlega, bætti árangur sinn um 10 kg og setti nýtt Íslandsmet.
Guðfinnur bætti sig líka í bekkpressu og eftir að hafa lyft 310 kg í annarri tilraun þá náði hann að klára 320 kg í þriðju tilraun sem er bæting hjá honum um 5 kg. Í réttstöðulyftu fór hann svo upp með 320 kg sem er jöfnun á hans besta. Samanlagt lyfti hann 1057.5 kg sem er bæting hjá honum um heil 30 kg og skilaði honum 9. sætinu í flokknum.
Til hamingju með Íslandsmetið og árangurinn!