Skip to content

Friðbjörn Hlynsson er Vestur-Evrópumeistari í klassískum kraftlyftingum og Hilmar Símonarson með silfur.

Þrír íslenskir keppendur luku í dag keppni í klassískum kraftlyftingum á fyrsta degi Vestur-Evrópumótsins sem fram fer um helgina í Reykjanesbæ. Óhætt er að segja að fyrsti keppnisdagurinn hafi komið vel út hjá íslensku keppendunum sem unnu til verðlauna og slógu Íslandsmet.

Drífa Ríkarðsdóttir átti góða innkomu á sínu fyrsta alþjóðamóti og blandaði sér í baráttu um verðlaun, bæði í bekkpressu og réttstöðulyftu. Endaði hún í 4. sæti í -57 kg flokknum með 377.5 kg í samanlögðum árangri sem er bæting á Íslandsmeti Ragnheiðar Kr. Sigurðardóttur, en þar að auki bætti hún sitt eigið met í réttstöðulyftu um heil 10 kg. Sigurvegari í flokknum varð Lara Fumagalli frá Ítalíu með 412.5 kg í heildarárangri.

Hilmar Símonarson keppti að þessu sinni léttur í -74 kg flokki, en hann hefur síðastliðin ár keppt í -66 kg flokknum þar sem hann á öll Íslandsmetin. Hilmar tók örugga seríu og náði sjö gildum lyftum með samanlagðan árangur upp á 535 kg sem skiluðu honum silfri í flokknum. Hann á þó vafalaust eftir að vaxa enn frekar og styrkjast sem keppandi í nýjum þyngdarflokki sem verður gaman að fylgjast með því. Sigurvegari í flokknum varð Bretinn Saber Miah með 660 kg í samanlögðum árangri.

Friðbjörn Bragi Hlynsson er nýkrýndur Vestur-Evrópumeistari í klassískum kraftlyftingum í
-83 kg flokki. Friðbjörn sem mætti í mjög góðu keppnisformi, hélt forystunni frá upphafi með öruggum og taktískum hætti og virtist eiga inni í öllum greinum, en hann tryggði sér titilinn með heildarárangri upp á 687.5 kg sem er mjög nálægt hans eigin Íslandsmeti. Silfurverðlaun í flokknum komu svo í hlut Norðmannsins Alexander Kleivene sem náði 662.5 kg í samanlögðum árangri.