Friðbjörn Bragi Hlynsson sem keppti í -83 kg flokki hefur lokið keppni á EM í klassískum kraftlyftingum. Friðbjörn lyfti seríunni 260 – 155 – 285 = 700 kg en hann átti góðan dag í hnébeygjunni þar sem hann bætti eigið Íslandsmet um 2.5 kg þegar hann fór upp með 260 kg. Hann átti einnig góða tilraun við Íslandsmet í réttstöðulyftu þegar hann reyndi við 295 kg en það fór því miður ekki upp í dag. Hann lyfti því samanlagt 700 kg sem skilaði honum 13. sætinu í flokknum en sigurvegari varð Jurins Kengamu frá Bretlandi með 823.5 kg í samanlögðum árangri.
Til hamingju Friðbjörn með 13. sætið og Íslandsmet!
Þá lauk Drífa Ríkarðsdóttir einnig keppni í dag en hún keppti í -57 kg flokki sem er langfjölmennasti þyngdarflokkurinn hjá konunum á mótinu. Því miður settu meiðsli strik í reikninginn hjá henni og hún var því töluvert frá sínum besta árangri í hnébeygju og réttstöðu en engu að síður ágætis innkoma á hennar fyrsta Evrópumóti. Drífa lyfti 115 kg í hnébeygju, 82.5 kg í bekkpressu, 155 kg í réttstöðu og lyfti því 352.5 kg samanlagt og hafnaði í 21. sæti flokknum. Sigurvegari varð Sovannphaktra Pal frá Frakklandi með 470 kg í samanlögðum árangri.
Til hamingju Drífa með fyrsta Evrópumótið! Það verður spennandi að fylgjast með þér á pallinum á næstu árum!
Á morgun er svo komið að Harrison Asena Kidaha sem keppir í -93 kg flokki (B-grúppu) kl. 10.00 og Alexander Erni Kárasyni sem keppir einnig í -93 kg flokki (A-grúppu) kl. 14.30.