Íslensku keppendurnir slógu ekki slöku við á öðrum keppnisdegi EM í bekkpressu en tvær konur og tveir karlar kepptu í dag. Kara Gautadóttir tryggði sér Evrópumeistaratitil í -57 kg unglingaflokki kvenna með 85 kg lyftu og varð jafnfram þriðja stigahæst yfir konur í unglingaflokkum. Í opnum flokki keppti Fanney Hauksdóttir sem einnig tryggði sér Evrópumeistaratitil með miklum yfirburðum, annað árið í röð. Fanney sem lyfti 155 kg í -63 kg flokki, bætti eigið Íslandsmet um 2,5 kg og setti um leið Norðurlandamet og virtist eiga nokkur kg inni sem verða tekin út seinna.
Í karlaflokki -74 kg keppti Jón Einarsson, sem er að stíga sín fyrstu spor á alþjóðamótum og hreppti hann fjórða sætið í sínum flokk með 162,5 kg lyftu. Þá keppti Einar Örn Guðnason í -105 kg flokki og náði einnig fjórða sætinu í sínum flokki en hann lyfti mest 240 kg sem var persónuleg bæting hjá honum.
Á morgun lýkur svo mótinu en þrír íslenskir keppendur eiga eftir að keppa, þær Helga Guðmundsdóttir, Hulda B. Waage og Árdís Ósk Steinarsdóttir.