Á morgun hefst í Plzen í Tékklandi Evrópumót öldunga í kraftlyftingum. Þrír íslenskir keppendur taka þátt.
Í -120,0 kg flokki karla M1 keppir Fannar Dagbjartsson. Í flokki -83,0 kg karla M2 keppir Halldór Eyþórsson og í flokki -66,0 kg karla M3 keppir Sæmundur Guðmundsson. Þeir eru allir félagar í Breiðablik.
Þeir eiga allir góða möguleika á verðlaunasætum, bæði í einstökum greinum og samanlögðu.
Fannar hefur æft mjög vel og ætlar sér stóra hluti á mótinu. Í fyrra vann hann til bronsverðlauna og fékk silfur og brons í greinunum – í ár er markmiðið að bæta gull í safnið. Halldór er í góðu formi og hefur mikla reynslu sem ætti að nýtast honum í keppni sem gæti orðið mjög spennandi, en mjög jafnt virðist vera á með mönnum í hans flokki. Í fyrra vann hann til bronsverðlauna í beygju og réttstöðu en mistókst í bekk og féll úr keppni í samanlögðu. Hann ætlar að bæta úr því í ár. Sæmundur hefur létt sig niður um flokk og er óskrifað blað í -66,0 flokki. Hann býr og æfir í Noregi og að sögn hafa æfingar gefið tilefni til bjartsýnis.
Sæmundur keppir á morgun, þriðjudag, kl. 14.00 að staðartíma.
Halldór keppir á fimmtudag kl. 10.00 og Fannar á laugardag kl. 11.00.
Heimasíða mótsins: http://www.powerlifting-czech.eu/index.html
Keppendalisti: http://goodlift.info/onenomination.php?cid=232
Við óskum þeim góðs gengis á mótinu.